Hörður torfa: „hann var fyrirferð, foss, hávaði, raketta, goshver, vindhviða. hann var líka djúpur dimmur hellir“

„Sumarið 1991, ég einn að æfa fyrir hausttónleikana mína í Borgarleikhúsinu í kjallaranum í húsi Samtakanna ´78 á Lindargötu. Það var barið hressilega á dyrnar. Sem laun fyrir æfingaaðstöðuna svaraði ég í símann og ræddi við það fólk sem kom á dyrnar. Þegar ég opnaði stóð skælbrosandi kekkur strákur fyrir utan og spurði hvort hann mætti ekki ræða aðeins við mig. Jú, það var besta mál og samtal okkar hófst. Samtal sem hefur staðið síðan í gegnum allar þær fjarlægðir og þá nánd sem vinátta býður uppá. Hann var kominn til að biðja mig um að spila í væntanlegu brúðkaupi sínu. Hann ætlaði að fara að giftast henni Steinu sinni.“

Þetta segir Hörður Torfason tónlistarmaður í fallegri kveðju til Halla Reynis. Fjölmargir hafa minnst Halla Reynis í dag og í gær og ljóst að hann hafði djúpstæð áhrif og hreif marga á sinni lífsleið. Greint var frá andláti Halla Reynis í gær. Hann gaf út átta sólóplötur á ferlinum og kom sú fyrsta út árið 1993. Þótti hann einn af okkar bestu trúbadorum en hann átti einnig lög á plötum annarra listamanna. Þá tók hann þátt í Eurovision á árunum 2011 og 2014.

\"\"

Hörður Torfason segir:

„Síðan upplýsti Halli mig þá um vináttutengsl nokkurra fjöldskyldumeðlima okkar sem tengdust líka húsunum sem við höfðum alist upp í. Svo kom á daginn að hann spilaði á gítar og var að semja söngva. Við sömdum um að ég kæmi vestur í dali og spilaði í brúðkaupinu fyrir bensín, tertusneið og tesopa. Ég var líka að fara að gera minn fyrsta geisladisk og bauð honum að líta við í hljóðverinu og fylgjast með upptökum. Auðvitað mætti hann og Gulli tvíburabróðir hans líka. Þeir voru svo líkir að það var varla hægt að greina þá í sundur,“ segir Hörður Torfa og heldur áfram:

„Ég vildi fá þá á hausttónleikana til að gera smá galdrasprell. Láta Halla birtast á vinstri væng og blása svo hressilega á hann að Gulli fyki inn á svið frá hægri væng. En það gekk ekki eftir. En þeir bættu mér það upp með því að láta heyra í sér á geisladisknum. Síðan fór Halli að gera sinn fyrsta disk undir hömrunum háu og þá var mér boðið í hljóðverið til skrafs og ráðgerða, gítarspils og söngs. Það var gaman, líka að hjálpa honum áfram inn í hin snúna heim söngvaskáldanna.

\"\"

Það var ekki átakalaust að ferðast um tilveruna með Halla en drenglyndi hans og einlægni bættu alla vankanta upp. Hugsanir hans og tilfinningar komu oft í gusum og fóru ekki framhjá neinum sem var í kringum hann. Hann var fyrirferð, flagg, foss, hávaði, raketta, hvellhetta, goshver, vindhviða. Hann var líka djúpur dimmur hellir. En þannig var hann bara. Hann sjálfur. Halli Reynis. Hann talaði alltaf meira en ég enda hafði hann djúpstæðari þörf fyrir það. Honum lá oft svo mikið á hjarta að það reyndist honum um of að lokum. Ég á eftir að sakna hans oft. En hann skilur eftir bergmál sitt í söngvum sem ég get huggað mig við og mun gera.“