Helgidómur jagúar-jóns skoðaður

Bíladelluþátturinn Kíkt í skúrinn sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 20:30 verður helgaður bíladögum á Akureyri sem fram fóru með viðeigandi skransi um nýliðna helgi.

Í þættinum hitta áhorfendur fyrir mikinn snilling að norðan sem á í meira lagi einstakt bílasafn, en hann er jafnan kallaður Jagúar-Jón. Þessa bíla hefur hann handsmíðað nánast frá grunni. Smíðin er einstök og handbragðið eftir því. Að sögn Jóa Bachmann, umsjármanns þáttarins hafa fáir fengið að sjá þessa dýrgripi með eigin augum, en allt handbragð er nánast fullkomið og ekki fræðilegt að sjá svo mikið sem fínustu rispur, sama hvað vel er skoðað; hvort heldur er sæti, mælaborð, mæla, grill eða sprautun. Þessi þúsundþjalasmiður hefur pantað boddíhluti frá verksmiðju og fundist þeir svo ljótir fyrir sinn smekk að hann smíðaði þá bara sjálfur til að hafa þetta almennilega gert.

Auk annars efnis í þættinum er farið á afmælissýningu Bílaklúbbs Akureyrar sem alltaf er haldin 17. júní, en þar er á ferðinni glæsileg sýning með 220 sýningartækjum af öllum gerðum en út frá þessari sýningu hafa þeir bíladagar þróast sem einkennt hafa Akureyri síðustu 20 árin.