Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, vandar Pírötum ekki kveðjurnar í færslu á Facebook þar sem hann bregst við pistli Einars Steingrímssonar um að Píratar stundi ritskoðun.
Einar sagði að á Pírataspjallinu á Facebook hafi lengi verið stunduð ritskoðun þar sem reynt er að þagga niður tilteknar skoðanir og fólk sem tjáir þær. Spyr hann: „Af hverju stunda Píratar ritskoðun?“
Hannes Hólmsteinn býður upp á svar:
„Svarið er: Af því að þeir eru ekki frjálslyndir og umburðarlyndir. Óþol þeirra gagnvart skoðunum, röksemdum og gögnum annarra sýnir, að undir niðri vita þeir, að málstaður þeirra er veikur,“ segir Hannes. „Þetta er undirmálsfólk og minnipokamenn, sem ætla samt sem áður að ná völdum og gera upptækt sjálfsaflafé annarra.“
Undir þetta taka nokkrir, en athygli vekur að þar á meðal er Erna Ýr Öldudóttir, yrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata.