Halldóra er átta ára og verður reið og sár þegar hún er kölluð gamla nafninu

Átta ára telpa sem er trans segist verða bæði sár og reið þegar hún er kölluð strákanafninu sem er skráð í Þjóðskrá. Hún fagnar nýjum lögum um kynrænt sjálfræði sem breyta þessu. Halldóra Rós fæddist í líkama stráks. Henni var gefið karlmannsnafn en hún upplifir sig ekki sem strák.
 
 

„Halldóra hefur átt erfitt félagslega lengi og var að hitta þroskaþjálfa í skólanum,“ segir Birna Björg Guðmundsdóttir, móðir Halldóru Rósar. „Svo 30. apríl í fyrra þá förum við á fund með henni og fleirum í skólanum og þá segir þroskaþjálfinn okkur: Við höldum að hún sé ekki að upplifa sig í þeim líkama sem hún er. Við vissum náttúrulega ekkert hvað transbarn var fyrr en við leituðum til Samtakanna 78. Það er náttúrulega enginn sem segir að barnið þitt sé trans, þú eiginlega færð bara að vita það hjá barninu sjálfu. 

Þá segir hún: „mamma mér líður yfirleitt meira sem stelpu heldur en strák.“ Þetta var í kringum 20. maí í fyrra og hún var búin að finna nafnið Halldóra í júní. Og hún var búin að taka ákvörðun þegar hún hætti í fyrsta bekk að hún myndi koma sem stelpa um haustið í annan bekk. Við sáum rosalega mikla hegðunarbreytingu þegar við leyfðum henni að vera hún,“ segir Birna

Þetta tekur Elvar Þór Arnórsson, faðir Halldóru Rósar, undir. „Bara miklu frjálsari og glaðværara barn, hamingjusöm. Bara afskaplega gaman að geta verið með henni svona og geta aðstoðað hana og stutt hana. Og manni líður rosalega vel líka að sjá barnið sitt glatt og ánægt og þá getur lífið bara gengið vel,“ segir Elvar.

Ítarlegt viðtal er að finna við foreldana á vef RÚV.