Halldór hjólar í stjórnvöld og lobbíista vegna umræðunnar um íslenska verðlagið: „það er greinilegt að við höfum ekkert lært“

Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur og útvarpsmaður, heldur uppteknum hætti í pistlum sem birtast á vef ríkisútvarpsins, en í nýjum slíkum sem birtist í dag gagnrýnir hann öðru sinni hátt verðlag á Íslandi og hugmyndir Íslendinga um að ekkert sé að á Íslandi. Á Twitter segir hann að stjórnvöld og lobbíistar reyni nú að „gaslight-a“ almenning.

Í pistli sínum sem birtist í síðustu viku lýsti Halldór því hvernig Ísland væri orðið óafsakanlega dýrt, með þeim afleiðingum að fjöldi fólks hefði flúið land. Í pistli dagsins lýsir hann viðbrögðum stjórnvalda við síðustu grein sinni.

Alls konar gröf á vef Stjórnarráðsins

„Á vef stjórnarráðsins voru í skyndi birt alls konar gröf og tölfræði sem sögðu að á Íslandi væri engin fátækt, þar væru hæstu launin, mesti kaupmátturinn, verðlag væri ekki hátt, tekjudreifing ofboðslega jöfn og svo framvegis. Í stuttu máli þá er allt upp á 10 á Íslandi og bara vitleysingar sem trúa einhverju öðru.

Svo næst þegar þú starir í sjokki á kvittunina í matvöruverslun, kæri hlustandi, þá skaltu muna að þetta er allt saman þér fyrir bestu. Lífið er ekki ógeðslega dýrt á Íslandi, þú heldur það bara, vegna þess að þú veist ekki betur.“

Halldór bendir á að gröf og tölfræði segi hins vegar ekki allan sannleikann og endurspegli ekki upplifun stórra þjóðfélagshópa.

„Og það er svolítið sjokkerandi að stjórnvöld og launaðir talsmenn einhverra hagsmunasamtaka bregðist illa við þegar bent er á alþekktar staðreyndir, eða þegar fjölmiðlar út í heimi komast að óþægilegri niðurstöðu um Ísland. Það er greinilegt að við höfum ekkert lært.“

Hann rifjar upp hvernig umhverfið hafi verið á Íslandi á árunum fyrir hrun, þegar gert var lítið úr viðvörunum erlendra sérfræðinga:

„Við vitum betur, sögðu ráðamenn. En þið vissuð ekki betur. Og þið vitið ekki heldur betur í dag vegna þess að þið eruð ekki í neinum tengslum við veruleika fólksins sem þið eigið að vera að þjóna, en ekki stjórna.“

Saknar enginn verðlagsins í útlöndum

Hann bendir á að íslenskir listamenn haldi meira og minna til í útlöndum og spyr hvers vegna svo sé. Ljóst sé að enginn Íslendingur sem búi erlendis sakni verðlagsins, verðtryggingar og óvissunnar á Íslandi.

„Hver er meginástæða þess að íslenskir listamenn halda meira og minna til í útlöndum? Vegna þess að þeir eru í 99,9% tilvika láglaunafólk og lífið er ekki gott fyrir láglaunafólk á Íslandi af því það er ekki hægt að lifa spart,“ skrifar Halldór.

„Trúðu mér, það mun enginn, ekki ein einasta manneskja, segja að hún sakni þessara hluta, og það þrátt fyrir að þú veifir framan í hana tölfræði stjórnarráðsins.“

 

Íslensk stjórnvöld & lobbýistar vinna nú saman að því gaslight-a almenning – ekki í fyrsta sinn! Þeir segja efnilega:

„Ef þér finnst Ísland alltof dýrt, þá hefurðu einfaldlega rangt fyrir þér, vegna þess að þú veist ekki betur.“