Hagnaður kviku jókst um 42 prósent

Kvika banki hagnaðist um 1.403 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri fjárfestingarbankans sem birt var í morgun, en til samanburðar nam hagnaður bankans 991 milljón króna á sama tíma í fyrra. Jókst hagnaðurinn því um tæp 42 prósent á milli ára.

Fram kemur í afkomutilkynningu bankans að arðsemi eiginfjár, miðað við afkomu fyrir skatt, hafi verið 17,3 prósent á ársgrundvelli á fyrstu níu mánuðum þessa árs.

Vaxtatekjur Kviku banka námu 1.234 milljónum króna á fyrstu þremur fjórðungum ársins en til samanburðar voru þær 1.235 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Þóknanatekjur bankans voru 2.774 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 55 prósent á milli ára.

Hreinar rekstrartekjur bankans voru alls 4.311 milljónir króna á tímabilinu og þá var rekstrarkostnaður 2.909 milljónir króna.

Nánar á

https://www.frettabladid.is/markadurinn/hagnaur-kviku-jokst-um-42-prosent