Hinn 25 ára gamli Hafsteinn Oddsson var í síðasta mánuði dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir stórfellda líkamsárás á konu fyrir utan skemmtistaðinn Lundann í Vestmannaeyjum í september 2016. Mbl.is og Vísir.is greina frá.
Árásin var afar hrottafengin. Í ákæru kemur fram að Hafsteinn hafi slegið konuna höggi í andlit fyrir utan Lundann með þeim afleiðingum að hún hafi fallið til jarðar. Skömmu seinna hafi hann veist aftur að konunni með ítrekuðum höggum og spörkum í andlit og búk og klætt hana úr öllum fötunum. Því næst hafi Hafsteinn yfirgefið hana þar sem hún lá nakin, mikið slösuð og bjargarlaus á götunni.
Við þessa tilefnislausu og ofsafengnu árás hlaut konan brot í gólfi hægri augntóftar, mar og mjúkpartabólgur á augn- og kinnsvæðum og opinn skurð fyrir ofan vinstra auga. Þann skurð þurfti að sauma saman með 5 sporum. Voru andlitsáverkar konunnar það miklir að hún var í raun afmynduð í framan.
Einnig hlaut konan mar á nefi og höku, blóðnasir og blóð í munni, skrapsár aftan á hnakka, roða og skrapsár yfir brjósthrygg, roða og eymsli ofarlega á vinstri rasskinn og ofkælingu, en líkamshiti hennar þegar hún fannst var aðeins 35 gráður.
Fyrir dómi sagðist læknir sem skoðaði áverka konunnar og gaf út læknisvottorð telja líklegt að fórnarlambið hefði ekki lifað nóttina af vegna ofkælingar hefði enginn komið henni til bjargar.
„Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að árás ákærða var að tilefnislausu og ofsafengin, en hann klæddi jafnframt brotaþola úr öllum fötum með harðræði og skildi hana eftir bjargarlausa með öllu. Þá er óhjákvæmilegt að líta til þess að all langt er um liðið án þess að ákærða verði um þann drátt kennt. Að öllu þessu virtu þykir hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í 6 ár, sem ekki kemur til álita að binda skilorði,“ segir í dómnum.
Hafsteinn var dæmdur til þess að greiða konunni 3,5 milljónir króna í miskabætur ásamt vöxtum, en hún hafði farið fram á 8 milljónir króna í bætur. Þá var hann dæmdur til þess að greiða samtals 8,2 milljónir króna í málskostnað.
Braut skilorð
Í dómnum kemur einnig fram að Hafsteinn hafi brotið skilorð við verknaðinn þar sem hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir tilraun til ráns. Sá dómur féll í Héraðsdómi Suðurlands í fyrrasumar.
Líkt og DV greindi frá hafði Hafsteinn þá, ásamt Heimi Gylfasyni, hótað karlmanni líkamsmeiðingum aðfaranótt föstudagsins 18. mars 2016 í því skyni að hafa af honum fjármuni. Fóru þeir með manninn að Landsbankanum að Bárustíg í Vestmannaeyjum þar sem Hafsteinn fór með manninn inn í anddyri bankans, þar sem hraðbanki er staðsettur.
Reyndi Hafsteinn að neyða manninn til að taka fjármuni út úr hraðbankanum. Hafsteinn meinaði manninum ítrekað að komast út úr anddyri bankans er hann gerði tilraun til þess. Á meðan beið Heimir beið fyrir utan anddyri bankans og stóð vörð er verknaðurinn átti sér stað en Hafsteinn hafði áður beðið hann að aðstoða sig við verknaðinn.