Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, skaut léttum skotum á Sósíalistaforingjann Gunnar Smára Egilsson, í færslu á Twitter. Gunnar Smári skrifaði grein á Vísi þar sem hann gagnrýndi söluna á Íslandsbanka, úr því var gerð frétt sem var vel lesin.
Hersir Aron sagði þá á Twitter:
„Gott að fá daglegt update á skoðunum Gunnars Smára Egilssonar í fréttum. Gæti orðið fast segment, til dæmis á eftir íþróttum og veðri.“
Undir þetta tóku margir, þar á meðal Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þá sagði einn netverji í athugasemd: „Hver er alltaf að setja tíkall í trúðinn?“ Fékk hann velþóknun hjá bæði Agnari Tómas Möller hjá Kviku banka og Gísla Valdórssyni hjá KOM almannatengslum.
Gunnar Smári var ekki sáttur við þessi skot og sagði á Facebook:
„Hersir Aron Ólafsson er á launum hjá almenningi við að aðstoða Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Hann finnur hér að því að sagt sé frá gagnrýni á störf ráðherrans og ríkisstjórnarinnar í fréttum, en ég hef bæði gagnrýnt leigu skattsins á húsi Péturs í Eykt og svo fráleita verðlagningu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka,“ segir Gunnar Smári.
„Hersi væri nær að aðstoða Bjarna við að vinna vinnuna sína betur en að hanga á twitter í vinnutímanum; til dæmis að gefa ekki hinum betur settu allt of mikinn afslátt af ríkiseignum og sólunda ekki almannafé í leigu þegar byggja má fyrir sama pening.“
Gunnar Smári notaði tækifærið til að setja spurningamerki við fjölda aðstoðarmanna:
„Annars er það spurning hvers vegna við erum að halda uppi þessum aðstoðarmannaher ráðherranna á þingfararkaupi. Hvað gerir þetta fólk? Annað en mæna upp í ráðherrann sinn, skjalla og sannfæra hann um að allir sem eru honum ekki sammála séu gallaðir á einhvern hátt. Er vel farið með almannafé að borga um 25 manns góð laun fyrir svona auðvirðilega iðju?“