Guðfinna með 70 milljónir án útboða

Enn finnast verkefni innan stjórnkerfisins sem Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrverandi þingkona Sjálfstæðisflokksins hefur fengið án auglýsinga eða útboðs, nú síðast tugmilljóna króna ráðgjöf fyrir Landspítalann.

Hringbraut hefur áður sagt frá nokkuð viðamiklum verkefnum sem fyrirtæki Guðfinnu, LC ráðgjöf hefur unnið fyrir annars vegar menntamálaráðuneytið án auglýsingar og útboðs og hins vegar atvinnuvegaráðaneytið án þess að nokkur annar hafi getað boðið í það verk. Fyrir fyrrgreinda ráðuneytið fékk Guðfinna á tólftu milljón króna vegna læsisverkefnið, fyrir það síðarnefnda sem sneri að ferðamálum fékk hún liðlega 15 milljónir, eða samanlegt 28,8 milljónir króna.

Nú er komið í ljós að fyrirtæki hennar fékk á síðasta ári og fram til dagsins í dag um 17 milljónir króna fyrir að gefa Landspítalanum ráð, án auglýsingar eða útboðs, en Fréttablaðið greinir frá þeim anga málsins í dag. Fyrir þann tíma virðist sem fyrirtæki Guðfinnu hafi fengið 38 milljónir króna fyrir einhver ráð sem enginn samningur er heldur til um - og eru mælanleg markmið með þjónustunni þar af leiðandi ekki fyrir hendi eins og kveði er á um þegar ríkið kaupir þjónustu af einkaaðilum úti í bæ.

Greiðsla ríkisins til Guðfinnu og fyrirtækis hennar, án auglýsinga eða útboðs, er því farin að nálgast 70 milljónir á nokkurra ára tímabili, en hún og eiginmaður hennar, Vilhjálmur Kristjánsson, eru einu starfsmenn fyrirtækisins.  

Guðfinna var alþinbgismaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 2007 til 2009.