Guðbjörg heiða: þurfti engan maka til að eignast yngri dótturina

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Marel á Íslandi, eins allra stærsta fyrirtækisins landsins, kemur til dyranna eins og hún er klædd í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut á morgun - og segir ófeimin frá því hvernig hún fór að því að eignast yngri dóttur sína.

Það er aðdáunarvert að fylgjast með henni segja frá sérstöðu sinni í þættinum. Hún hafi ákveðið það upp á eigin spýtur fyrir fáum árum að ein dóttir af fyrra sambandi væri ekki nóg í hennar líifi - og af því hún væri orðin svo óskaplega sjálfstæð og kynni vel við það, hefði engan tíma fyrir eitthvert makastand, hafi hún afráðið að leita til erlends sæðisbanka og eignast yngri dótturina, sem nú er þriggja ára, með tæknifrjóvgun. Hún lýsir því af einlægni hvernig hún hafi farið að í þessum efnum og hvernig hún hyggist hátta samtalinu við litlu telpuna sína á næstu árum þegar sú stutta áttar sig betur á því að hún hefur engan pabba á heimilinu.

Guðbjörg Heiða er einstakur persónuleiki eins og vel kemur fram í viðtalinu - og segist ekki stjórna Marel, heldur stjórni hún í fyrirtækinu, ásamt svo mörgu öðru færu fólki, en fyrirtækjamenning er henni afar hugleikin, þar á meðal virk jafnréttisstefna, svo og mikilvægi góðs anda á vinnustað sem kalli fram hæfileika hvers og eins starfsmanns.

Þessi hressilegi og opinskái iðnaðarverkfræðingur hreppti aðalverðlaunin á Viðurkenningahátíð Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, á dögunum og var augljóst af viðtökunum í Gamla bíói, þar sem hátíðin var haldin, að hún er vel að þeim komin. Og verkfræðina at arna valdi hún einmitt af því hún hafði farið í FB, skóla sem væri sko enginn grunnur að þess konar menntun eins og alhæft var í öllum kreðsum í kringum hana, en hún vildi afsanna það, þannig væri nú hennar karakter, ögrandi og erfið verkefni væru hennar ær og kýr.

Mannamál byrjar klukkan 20:00 á fimmtudagskvöld, en alla viðtalsþættina með því nafni, bráðum 200 að tölu, má nálgast inni á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.