Grétar Sigurðarson er látinn

Athafnamaðurinn Grétar Sigurðarson er látinn en hann var 45 ára gamall. Grétar hefur verið búsettur á Spáni undanfarin ár ásamt sambýliskonu sinni en hann lætur eftir sig tvo syni.

Þetta kemur fram í frétt DV en ekki kemur fram hver dánarorsök Grétars var.

Grétar var einn af þremur mönnum sem hlaut fangelsisdóm fyrir hlut sinn í líkfundarmálinu en hann hafði snúið við blaðinu eftir afplánun sína.

Hann var ávallt opinskár um fortíð sína og tjáði sig um afbrot sín með forvarnargildi í huga. Einni var hann virkur innan AA samtakanna eftir að hafa ákveðið að taka edrú mennsku sína föstum tökum.

Árið 2018 kom út íslenska myndin „Undir Halastjörnu“ sem fjallaði um líkfundarmálið en málið er eitt þekktasta sakamál íslandssögunnar.