Gleyptu þetta allir eins og sannleika

„Þetta var mjög trúverðugt þar sem það var fenginn raunverulegur þulur hjá Ríkisútvarpinu til að flytja þessar tilkynningar. Þegar hann gerði það þá hafði hann nú ekki hugmynd um út á hvað þetta leikrit gengi. Þetta var Ragnar Tómas Árnason, dóttir hans var með okkur í árgangi, við höfðum aðgang að honum. Það var hermt í þessum þætti eftir þekktum mönnum, stjórnmálamönnum, útvarpsstjóra og fleirum. Það var Karl Guðmundsson eftirherma sem gerði það svo snilldarlega að það gleyptu þetta bara allir eins og sannleika,“ segir Sigurður St. Arnalds verkfræðingur.

Sigurður og Heimir Sindrason tannlæknir eru gestir Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem þeir ræða bók sem þeir ásamt nokkrum skólafélögum úr sama útskriftarárgangi í MR hafa sett saman, Styrjöldin í Selinu - Upprifjun.

Bókin fjallar um hrekk sem hluti nemenda gerði árið 1965 um að yfirvofandi væri þriðja heimsstyrjöldin og að Keflavíkurflugvöllur yrði sprengdur í loft upp innan skamms. Þetta var aðeins rúmum tveimur árum eftir Kúbudeiluna þar sem heimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar og því óttinn við styrjöld mikill.

Heimir segir Sigurð alfarið eiga heiðurinn að hrekknum en að sjálfur hafi hann verið fórnarlamb. „Þetta var rosaleg lífsreynsla fyrir okkur öll og mikið af mínum vinum sem ég var alltaf að spyrja: „Hvernig upplifðuð þið þetta?“ Það voru allir sem upplifðu þetta þannig að þetta hefði verið ein skelfilegasta upplifun á lífsleið sinni,“ segir Heimir.

Innblástur frá Orson Welles

Sigurður segir að þetta hafi einungis verið hugsað sem hrekkur og að litið hafi verið til frægrar uppsetningar Orson Welles á útvarpsleikritinu Innrásin frá Mars árið 1938 sem innblásturs. Sá flutningur reyndist svo sannfærandi að hann olli múgsefjun hlustenda, sem trúðu því margir hverjir að Marsbúar hefðu hafið innreið sína í New York. Með Innrásina frá Mars sem innblástur var ákveðið að tjalda öllu til þegar kom að hrekknum í Selinu, í formi afar trúverðugra útvarpstilkynninga.

Eldri bróðir lagði grunninn

Um aðdragandann að hrekknum segir Sigurður: „Einhvern hafði rekið minni til þess að níu árum á undan okkur hafði verið reyndur svona hrekkur í Selinu og fyrir því hefði staðið Ragnar Arnalds, bróðir minn eldri, hann var í MR níu árum á undan mér. Sá hrekkur hins vegar gekk ekki til enda og kennarinn stoppaði þetta af mjög snemma. Ég fór á stúfana og kannaði málið. Í þessu tilviki þá datt honum í hug að setja það á svið að Rússar teldu sig hafa fengið ógnun frá Bandaríkjunum um að Bandaríkin ætluðu að ráðast á Rússland og andsvar Rússa var að þeir ætluðu að láta eyða þremur herstöðvum þaðan sem þeir töldu að kjarnorkusprengjur yrðu sendar til Rússlands. Ísland fékk þá úrslitakosti að annað hvort myndum við Íslendingar sjá til þess að stöðin í Keflavík yrði eyðilögð eða Rússarnir myndu gera það sjálfir með því að varpa vetnissprengju á Keflavíkurflugvöll síðar sama dag.“

Nánar er rætt við þá Sigurð og Heimi í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.