"Vandi íslenskrar verslunar er tvítollun," segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, en hugmyndir eru uppi að hálfu stjórnvalda um að afnema íslenska tollinn af innflutningi á fatnaði og skóm, en hann er núna 15%. "Vandinn er sá," segir Andrés "að þessar vörur eru að langmestu leyti framleiddar í Asíu og koma til Íslands í gegnum birgja í Evrópu sem þurfa að greiða 15% verndartolla Evrópusambandsins á leið vörunnar inn í álfuna. Hún er því tolluð tvisvar á leiðinni inn í íslenskar búðir þar sem að auki leggst efra þrep virðisaukaskattsins á hana."
Bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra hafa boðað afnám tolls á fatnaði og skóm, nú síðast Ragnheiður Elín á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu. Það myndi þýða hálfs annars milljarðs tekjutap fyrir ríkissjóð, en verulega kjarabót fyrir allan almenning í landinu. Andrés hjá SVÞ segir samtökin einnig berjast fyrir því að föt og skór fari niður í neðra vaskþrepið, 11%, en það muni almenning miklu máli. Tap ríkissjóðs á þeirri aðgerð næmi 3 milljörðum króna. Á móti gæti komið, að sögn Andrésar, afnám endurgreiðslu á vaski til erlendra ferðamanna sem nemur 1,6 milljarði króna á ári.
Horft hefur verið til fríverslunarsamnings við Kínverja sem liðs í lausn á tvítollun. Andrés segir að það muni vissulega hjálpa stærstu innflytjendum á fatnaði og skóm sem geti flutt inn vörur í mjög stórum einingum beint frá Kína, en það muni mismuna öðrum og minni verslunum sem þurfi áfram að flytja inn vörurnar í gegnum birgja í Evrópu. Það sé vart sanngjarnt.