Forstjóri kredia group segir smálán með okurvöxtum heyra fortíðinni til: „við berum virðingu fyrir hámarksgjöldum á íslandi“

Forstjóri Kredia Group, Ondřej Šmakal, segir að smálán með okurvöxtum heyri nú sögunni til, að minnsta kosti hjá fyrirtækjum Kredia Group. Slík lán hafa borið allt að 3.000% vexti en nú eru þeir dagar sem sagt liðnir hjá Kredia Group ef marka má það sem Šmakal segir. Kredia Group rekur meðal annars Hraðpeninga, Múla, 1919, Smálán og Kredia.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að vextir smálána hjá fyrrnefndum fyrirtækjum hafi verið lækkaðir í 53,75% en það eru hæstu lögleyfðu vextir í dag. Haft er eftir Šmakal að ef 20.000 krónur eru teknar að láni og lánið síðan endurgreitt innan 30 daga þurfi að greiða 719 krónur ofan á höfuðstólinn.

„Við berum virðingu fyrir hámarksgjöldum á Íslandi.“

Er haft eftir forstjóranum.

Hætt að innheimta lán með ólöglegum vöxtum

Almenn innheimta hefur séð um innheimtu fyrir smálánafyrirtækin en stjórnandi þess Gísli Kr. Björnsson, lögmaður, sagði í samtali við Fréttablaðið að hætt væri að innheimta lán með hærri vöxtum en 53,75% og að engin eldri lán væru í innheimtu. Hann sagði jafnframt að það hafi verið að kröfu Almennrar innheimtu að lánunum var breytt og nú hafi öllum lánum verið breytt þannig að þau fara ekki yfir hámark árlegs hlutfallskostnaðar.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, sagði jákvætt að smálánin heyri nú sögunni til.

„Ef það er raunverulega svo að Almenn innheimta er loksins að hætta innheimtu á ólögmætu smálánunum þá auðvitað fögnum við því, enda tími til kominn, og við væntum þess að ólögmætar kröfur verði látnar niður falla.“

Smálán hafa valdið mörgum vandræðum en á síðasta ári leitaði um helmingur skjólstæðinga Umboðsmanns skuldara til embættisins vegna smálána.