Forsetafrúin segist ekki vera handtaska eiginmanns síns - fékk aulahroll vegna instagram myndar

Eliza Reid, for­setafrú Íslands, skrifar um hlutverk sitt sem forsetafrú Íslands í grein sem hún birt­i í dag í The New York Times.

Í greininni minnist Eliza á mynd­bands­upp­töku sem Don­ald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evr­ópu­sam­bands­ins, birti á Instagram fyrr í sum­ar af mök­um þjóðarleiðtoga allra ríkja sem tóku þátt á fundi G7 ríkj­anna í Biarritz í Frakklandi. Segir hún að þessi mynd hafi gefið sér aulahroll og að henni finnst það lélegt að sjá konur þjóðarleiðtoga fyrst og fremst lofaðar fyrir fataval sitt.

„Sem maki þjóðar­höfðingja þá vakti þessi Instagram færsla mér aula­hroll. Það er miður að sjá sjálf­stæðar og gáfaðar kon­ur smækkaðar niður í leik­mun, hverra til­vera felst í því að styðja stjórn­mála­stefnu eig­in­manna sinna — að sjá þær fyrst og fremst lofaðar fyr­ir fata­val sitt, eða eins og færsla Tusk gaf til kynna fyr­ir siðsam­legt og hófstillt hátt­erni. Get­um við árið 2019 ekki gert bet­ur en að gefa okk­ur að mak­ar þjóðarleiðtoga hafi ekk­ert betra við tíma sinn að gera en að labba á eft­ir hinum helm­ingn­um til að bragða á víni, fylgj­ast með þjóðdöns­um og horfa á út­sýnið á meðan að (nær ein­göngu karl­kyns) mótaðilar þeirra sjá um Al­var­legu Mál­in?“

Eliza segist í greininni ekki vera handtaska eiginmanns síns Guðna Th. Jóhannessonar og að henni gremjist þegar viðvera hennar sé bara talin vera sjálfsögð í stað þess að vera óskað eftir henni.

„Engu að síður þá gremj­ast mér enn þau til­felli þar sem vera mín er tal­in sjálf­sögð frek­ar en að henn­ar sé óskað. Ég er ekki hand­taska manns­ins míns, sem má grípa í þegar hann hleyp­ur út um dyrn­ar og stilla á upp hljóðlega við hlið hans við op­in­bera viðburði. (Vit­an­lega á hann enga hand­tösku, hann er með al­menni­lega vasa á föt­un­um sín­um sem geyma allt sem hann þarf. En það er efni í aðra umræðu),“

Að lokum segir hún að þegar hún sé spurð um starfsferil sinn sé alltaf spurt um hann í þátíð, þrátt fyrir að hún sé enn þá að vinna launaða vinnu.

„Í gott sem hverri ein­ustu ferð sem ég fer ein í sem for­setafrú er ég spurð hver sé að gæta fjög­urra ungra barna okk­ar, rétt eins og ást­rík­ur faðir þeirra beri eng­ar for­eldra­skyld­ur. Og ef ég er spurð um starfs­fer­il minn þá er það alltaf í þátíð, jafn­vel þó að ég sinni enn miklu af minni launuðu vinnu. (Af hverju ætti ég að fá mér nýja vinnu bara af því að eig­inmaður minn var kjör­inn í aðra?),“