Fólkið sem hefur tíma aflögu

Man ekki betur en tíminn liði hægar þegar ég var að alast upp er halla tók á síðustu öld - og einhvern veginn var sólarhringurinn allur rýmri í gerð sinni og lögun.

Þegar á leið - og einhver sæmileg fullorðnun fannst í skrokki mínum og sinni, fannst mér ég hafa tapað fyrir tímanum. Hann reyndist aldrei nógur. Ég komst í hverja tímaþröngina af annarri. Og var alltaf á spani.

Allt þar til ég varð fimmtugur. Þá gaf ég sjálfum mér í afmælisgjöf að hætta að flýta mér. Niðurstaða mín var sú á miðjum aldri að sjaldnast, ef nokkurn tíma, væri fólginn mikill gróði í því að flýta sér. Og ef til vill er hann langtum meiri og varanlegri þegar dokað er við - og hægt er á asanum. 

Þá fyrst blasir lífið við manni. 

Því er á þetta minnst að ég tekk hatt minn ofan fyrir fólki sem gefur sér tíma í samfélaginu. Og einkum og sér í lagi tek ég sama höfuðbúnaðinn ofan fyrir því fólki sem gefur sér tíma í þágu samfélagsins. 

Varla er til mikilvægara fólk. Ómetanlegri framleiðni.

Það skapar kannski ekki hagvöxt sem er mælanlegur á viðurkenndar vogir. En það skapar hagsældina, velgjörðina, að sönnu það sem samfélagið þarf einna helst og mest á að halda svo það rísi undir nafni.

Þetta er gjarnan fólk sem sem fer ekki mikinn. Og þarf ekki að láta á sér bera. En vinnur þeim mun meira gagn með þægð sinni og íhygli, útsjónarsemi og dugnaði. Án þess nokkurn tíma að sá gróði sé mældur í peningum og upphefð.

Það starfar í hollvinasamtökum, líknarfélögum og björgunarsveitum og biður aldrei um klapp á bakið eða viðurkenningu en fær þeim mun meiri umbun í ávinningi samfélagsins; tækjum sem bjarga lífi, hönd sem styður við, leit sem finnur týndan.

Þetta er fólkið sem hefur tíma aflögu.

Og býr til sannara samfélag.

Þökk sé því á sólhvörfum ... sem og öðrum tímum ársins.