Fasteignaveldi Sturlu að hruni komið: Enn fleiri eignir á nauðungarsölu.

Fjárfestirinn og athafnamaðurinn Sturla Sighvatsson berst nú um á hæl og hnakka að halda fasteignaveldi sínu á floti en flest virðist benda til þess að það rambi á barmi hengiflugsins. Í vikunni eru auglýstar nauðungarsölur á sex fasteignum sem Sturla á í gegnum félag sitt Laugaveg ehf.

Um er að ræða fjórar íbúðir í húsi við Rauðarársstígur 40 og eru gerðarbeiðendur Íslandsbanki, Rauðarársstígur 40-42 húsfélag, Vátryggingafélag Íslands, Orkuveita Reykjavíkjur og Forni sf.

Þá er einnig auglýst nauðungarsöluuppboð á tveimur íbúðum við Lindargötu 50 sem eru í eigu sama félags Sturlu. Þar eru það Arion banki, Reykjavíkurborg, Forni sf. og Vátryggingafélag Íslands sem eru gerðarbeiðendur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hluti þessara eigna er á uppboði því í frétt Stundarinnar frá því í febrúar 2020 kemur fram að eignirnar við Rauðarárstíg hafi verið auglýstar á nauðungarsöluuppboði. Í það skipti tókst Sturlu að forða þeim frá því á síðustu stundu.

Mikið hefur verið fjallað um barátta Sturlu til þess að halda eignum sínum á síðum fjölmiðla undanfarið. Það þarf ekki að koma á óvart enda var Sturla áberandi fjárfestir á árum áður og er enn þann dag í dag skráður fyrir hlutu í 34 öðrum fyrirtækjum í gegnum vef eignarhaldsfélaga.

Í byrjun árs greindi Viðskiptablaðið frá því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, áður Íbúðalánasjóður, hefði farið fram á nauðungarsölu á átta íbúðum í fjölbýlishúsi við Grænásbraut 604A, að Ásbrú í Reykjanesbæ. Íbúðirnar eru skráðar í eigu Sturlu í gegnum einkahlutafélagið Grænásbraut 604A ehf. Samkvæmt heimildum Hringbrautar var uppboðinu frestað en óvíst er hvort að Sturla hafi náð að semja við kröfuhafana.

Sturla var einn af arkitektunum á bak við stofnun leigufélagsins Heimavalla en grunnstoðir félagsins urðu til með kaupum á eignum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sturla varð síðan framkvæmdastjóri Heimavalla um skeið og hafði mikla þekkingu á og tengsl inn í stofnunina.

Þá þekkingu nýtti hann sér með því að verða sér úti um 190 milljón króna lán, til að kaupa eignir við Grænásbraut, frá Íbúðalánasjóði til 50 ára á afar hagstæðum vöxtum sem eingöngu voru í boði fyrir óhagnaðardrifin leigufélög.

Árið 2020 fjallaði Viðskiptablaðið einnigum nauðungarsöluuppboð á tveimur eignum Sturlu í Mosfellsbæ en á sama tíma var allt í uppnámi vegna íbúða sem verið var að byggja við Gerplustræti 2-4 sem Sturla var í forsvari fyrir. Afhending þeirra eigna dróst um eitt og hálft ár og olli mörgum fjölskyldum tjóni.