Eyrún hjúkrunarfræðingur segir að Ísland verði að skella í lás: „Við starfsfólkið erum að bugast“

„Daglega minnist ég siðareglna hjúkrunarfræðinga, sérstaklega 7.grein: Hjúkrunarfræðingur vekur athygli á því ef ráðstafanir stjórnenda eða stjórnvalda ganga gegn hagsmunum skjólstæðings,“ segir Eyrún Arnardóttir, hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landspítalans, í ítarlegri færslu á Facebook. „Síðustu vikur hafa ráðstafanir stjórnenda og stjórnvalda gengið gegn hagsmunum skjólstæðinga okkar. Gegn hagsmunum þjóðarinnar.“

Hún segir stöðuna hræðilega:

„Við starfsfólkið erum að bugast. Ég er að bugast.“

Starfsfólkið sé að slökkva elda:

„Á meðan fjármálaráðherra hneykslast á lítilli framleiðni á Landspítala, er ég hrædd um samstarfsfólk mitt og mig sjálfa því það gengur ekki að manna næstu vakt og ekki næstu vakt og ekki næstu vakt. Við hlaupum um reynum að slökkva elda, eins og gróðureldar sem geisa um allan heim, en við náum ekki að slökkva logann sem geisar í undirstöðum alls, grunninnum, í samfélaginu.“

Eyrún segir að það þurfi að herða takmarkanir innanlands. „Skella alfarið í lás. Svo við getum tryggt öryggi þeirra sem eru þegar smituð. Delta spyr ekki hver er bólusettur eða með hverju. Við erum núna að meðhöndla þá sem smituðust í síðustu viku og þar síðustu. Ekki núlíðandi viku eða næstu mánuði og við erum að springa.“