Esb verður að stjórna ytri landamærum

Evrópusambandið verður að takmarka fjölda flóttamanna sem fá að fara inn í sambandsríkin. Þetta sagði forsætisráðherra Frakklands í hádegisverði með erlendum blaðamönnum í gær.
 

Í frétt RÚV í morgun er haft eftir Manuel Valls að Evrópa geti einfaldlega ekki tekið á móti fleiri flóttamönnum. Það sé mikilvægt fyrir framtíð Evrópusambandsins að hafa stjórn á ytri landamærum þess. Evrópuþjóðir hafa átt í miklum vandræðum með að taka á móti öllum þeim flóttamönnum sem streymt hafa frá Mið-Austurlöndum og Afríku undanfarna mánuði.

Valls segir í fréttinni að Evrópuríki verði að aðstoða nágrannaríki Sýrlands við að hugsa um þá flóttamenn sem þar eru. Annars eigi eftir að reyna verulega á landamærin við Evrópu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað í gær að veita Tyrkjum fjárhagsaðstoð vegna þeirra milljóna sýrlensku flóttamanna sem flúið hafa yfir landamærin til þeirra. Stjórnvöld í Ankara vonast eftir þriggja milljarða evra stuðningi en samkvæmt heimildum AFP fréttaveitunnar er alls óvíst að hægt verði að afla svo mikils fjár, að því er segir í frétt RÚV í morgun.