Hún gagnrýnir rannsókn lögreglu á málinu, töfina, hvernig staðið var að yfirheyrslum skömmu eftir að sjúklingurinn lést og telur að margt hefði mátt fara betur.
Ástu var gefið að sök að hafa ekki tæmt loftbelg í öndunarvegi sjúklings þegar hún setti talventil á barkaraufarennu á hálsi hans og slökkti á öndunarvélinni sem hann var í. Ef loftið er ekki tæmt úr belgnum getur viðkomandi aðeins andað að sér en ekki frá sér. Það getur orðið til þess að hann kemst í andnauð á aðeins nokkrum mínútum. Sjúklingurinn hins vegar lést hálftíma síðar án nokkurra skýringa.
Í aðalmeðferð málsins setti verjandi Ástu, Einar Gautur Steingrímsson spurningar við hversu langur tími leið frá því að hún setti talventilinn á þar til endurlífgun hófst hálftíma síðar. Héraðsdómur taldi útilokað að sjúklingurinn hefði getað verið án fráöndunar í svo langan tíma. Auk þess taldi hann ósannað að öllu leyti að henni hefði láðst að tæma loftið úr belgnum, eins og segir í umfjöllun á ruv.is í dag um viðtalið í Kastljósinu í gærkvöld.