Kynferðisbrotamaður með sérstakt samkomulag við árbæjarlaug: „maður er ekki mikið að slaka á í heita pottinum með hann í kringum börnin manns“

Maður sem dæmdur hefur verið fyrir kynferðisbrot gagnvart tveimur 17 ára piltum er með sérstakt samkomulag við Árbæjarlaug vegna komu sinnar þangað. Þetta staðfestir Hafliði Hilmarsson, forstöðumaður Árbæjarlaugar, í samtali við Hringbraut.

Maðurinn var dæmdur árið 2016 af Héraðsdómi Reykjavíkur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart tveimur 17 ára piltum  í Laugardalslaug. Brotið átti sér stað í lok árs 2014.

Fastagestur Árbæjarlaugar segir Í samtali við Hringbraut að hann hafi kvartað við vaktstjóra laugarinnar þegar hann hafi orðið var við manninn í lauginni. Þótti honum óþægilegt að vita af manninum í návist barna. 

„Ég sá þennan mann og þekkti hann strax og vissi að hann hafði verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum. Ég var sjálfur með börnin mín þarna og fannst það afar óþægilegt að sjá hann þarna. Maður er ekki mikið að slaka á í heita pottinum með hann þarna í kringum börnin manns.“

Þegar hann varð var við að hinn dæmdi mann í lauginni, kvartaði hann við vaktstjórann í Árbæjarlaug. Tjáði vaktstjórinn honum að ákveðið samkomulag hefði verið gert við manninn um veru hans í lauginni.

„Þegar ég fór svo upp úr lauginni bað ég um að fá að tala við vaktstjórann til að kvarta undan því að þessi maður væri ofan í lauginni, ekki undan einhverjum venjulegum manni, heldur manni sem er dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Ég fékk þá þau svör að þau vissu af honum og að það hefði verið gert sérstakt samkomulag við hann. Hann væri aðeins í lauginni seint á kvöldin, þegar það væri minna um að börn og unglingar væru á svæðinu.“ 

Í samtali við Hringbraut segir Hafliði að maðurinn fái að vera lengur í lauginni til þess að getað verið einn í búningsklefunum eftir lokun, á meðan starfsfólk er að þrífa laugina.

„Ég þekki náttúrulega málið sem var í Laugardagslauginni. Ég var forstöðumaður í Grafarvogi þegar það var. Það var náttúrulega bara, hann var með einhvern dónaskap við einhverja tvo stráka í pottinum.“ 

BLM: „Þú átt við þegar hann framdi kynferðisbrot gegn tveimur strákum og dæmdur fyrir ?

„Ég ætla ekki að fara dæma um hvað brotin voru alvarleg eða svoleiðis, en maðurinn var dæmdur fyrir þetta,“ segir Hafliði og bætir við:

\"Eins og staðan er, eins og þú talar um að það sé samkomulag, ég veit að hann mætir á þessum tíma. Hann fær að vera aðeins lengur, þannig að hann þarf ekki að vera inn í búningsklefanum með neinum. Þeir leyfa honum að vera aðeins lengur eftir lokun. Ég veit ekki hvernig samkomulagið er gert. Afþví maðurinn er þessi þjóðþekkti maður og er að mæta í sund, þá er kannski farsælast að hann sé að mæta á þessum tima. En ég held að hann eigi alveg rétt á því að mæta bara þegar það er skólasund, ef honum sýnist svo.