Páll óskar breytti eurovision


Það er nokkuð hefðbundið að Svíar vinni Eurovision, eins og raunin varð í gærkvöldi þegar þeir sigruðu í sjötta sinn.  En Söngvakeppnin er líka þekkt fyrir að fara út fyrir normið, og segir BBC okkar eigin Pál Óskar ókrýndan konung þeirra sem hafa farið á ystu nöf í flutningi sínum á þessum vettvangi.


Breska ríkissjónvarpið segir að framlag keppnisþjóða hafi verið nokkuð hefðbundið árið 1997, keltneskar ballöður hafi komið sterkt inn ásamt þjóðlagapoppi.  Þá hafi hinn íslenski Páll Óskar stigið á sviðið með lag sitt Minn hinsti dans. Eurovision-áhorfendur hefðu aldrei áður orðið vitni að öðru eins. 




Lagið hafi byrjað með sínu taktfasta danstakti áður en myndavélin lenti á leður- og lýkraklæddum Páli Óskari, gleiðfættum útafliggjandi á hvítum sófa, umkringdum konum í korseletti og netsokkabuxum.  Páll Óskar átti sviðið algerlega þetta kvöld, segir BBC.


Þetta hafi verið fyrsta kynæsandi atriðið sem birtist í Eurovision, svo hlaðið kynþokka að breski þulurinn Terry Wogan lét þau orð falla í lokin:  "Ég vona að mamma þín hafi ekki verið að horfa á þetta!"