Samkvæmt samanburði á verðlagningu á bensíni og dísilolíu í 30 löndum er Ísland á toppnum. Íslenskir neytendur borga hæsta verðið fyrir eldsneytið og kemur Noregur, sem er þekkt fyrir hátt eldsneytisverð til neytenda, fast á hæla okkar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.
Þar segir að verðmunur á bensínlítra á milli Íslands og Noregs sé ekki marktækur þar sem hann er aðeins rúm ein króna. Verðmunurinn er mun meiri á dísilolíunni, eða tæpar 11 krónur miðað við næst dýrasta dísillítrann sem fæst einnig í Noregi.
Í lok júlí var munurinn á hæsta og lægsta verði á höfuðborgarsvæðinu 40 krónur á bensínlítra og 37,40 krónur á dísillítra. Costco bauð ódýrasta eldsneytið en N1 og Olís voru með hæsta verðið.
Verðmunurinn er mestur á höfuðborgarsvæðinu. Verðið á tveimur stöðvum Atlantsolíu, tveimur stöðvum Orkunnar og þremur stöðvum ÓB sem bjóða ódýrasta verðið fyrir utan Costco var ríflega 32 krónum undir algengasta verði á dælustöðvum þessara sömu félaga og um 37 krónum undir hæsta verðinu hjá N1. Margir viðskiptavinir eru með afslátt á lítraverði á öðrum stöðvum en þessum sjö ódýrari.
Verðmunurinn utan höfuðborgarsvæðisins er mestur í kringum 10 krónur á lítra.
Fastir skattar á hvern bensínlítra hér á landi eru 82,85 krónur og svo leggst 24 prósent virðisaukaskattur ofan á innkaupsverðið, skattana og álagninguna. Fastur skattur á dísillítra er 74 krónur og 24 prósent í virðisaukaskatt. Í Noregi eru fastir skattar á bensinlítra 88 krónur (umreiknað með gengi í lok júlí) og 70,65 krónur á dísillítra. Virðisaukaskatturinn í Noregi er 25 prósent.
Eldsneytisverð í löndunum 30