„ég geri mér grein fyrir að þetta er áfall fyrir mörg ykkar“

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, sendi tölvupóst á starfsfólk WOW klukkan 11.49 í morgun, þar sem boðað var til starfsmannafundar nú klukkan 12.30 vegna yfirtöku Icelandair Group á félaginu.

Sjá nánarIcelandair kaupir WOW air – „Mik­il tæki­færi til hagræðing­ar“

Tölvupósturinn er á ensku, en í honum segir Skúli að erfið staða félagsins hafi leitt til afar erfiðra ákvarðana. En niðurstaðan hafi orðið sú að Icelandair muni taka yfir WOW, verði samningurinn samþykktur af hluthöfum og Samkeppniseftirlitinu, sem geti tekið um þrjár vikur.

Skúli segir að félögin tvö hafi unnið að yfirtökunni síðustu tvo sólarhringana, en engar breytingar verði á daglegum störfum og farþegar WOW verði þjónustaðir áfram með sama hætti og boðið verði upp á lægstu fargjöldin áfram.

Þá segist Skúli gera sér grein fyrir því að þessar fréttir reynist starfsfólki WOW áfall (shock) þar sem þetta sé ekki hluti af upprunalegum áætlunum fyrirtækisins. Hinsvegar sé þetta besta lausnin miðað við þær kringumstæður sem skapast hafi, og hvetur hann starfsfólk sitt til að líta á þetta sem tækifæri til að halda áfram sem hluti af sterkari heild sem geti náð árangri til lengri tíma litið.

Þá þakkar hann starfsfólki sínu fyrir frábært starf.

Bréfið má lesa hér að neðan í íslenskri þýðingu:

„Kæru vinir, þegar við byrjuðum með WOW air fyrir sjö árum síðan hefði ég aldrei getað ímyndað mér þetta ótrúlega ævintýri sem WOW air hefur verið. Við höfum gert varanlegar breytingar á fluglandslaginu á Íslandi og sett WOW air á kortið sem framúrskarandi lággjaldaflugfélag þvert yfir Atlantshafið. Ég er ótrúlega stoltur af öllu því sem við höfum áorkað og okkar stórkostlega WOW air teymi. Við höfum unnið stóra sigra en einnig glímt við stórar áskoranir.

Þetta ár sérstaklega, hefur verið mjög stór áskorun í samhengi við hinn ótrúlega vöxt og árangur sem við höfum náð á undanförnum árum. Því miður hafa utanaðkomandi aðstæður haldið áfram að versna og aðstæður margra flugfélaga breyst til hins verra. WOW air er ekki undanskilið og þrátt fyrir að við séum búin að vinna sólarhringunum saman við að reyna að breyta aðstæðunum þá stöndum við frammi fyrir mjög erfiðum ákvörðunum. Niðurstaðan er að Icelandair Group mun eignast WOW air og við verðum sjálfstætt dótturfélag Icelandair Group.

Kaupin eru enn bundin ákvörðun hluthafa Icelandair Group sem og samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Það ferli mun taka rúmlega þrjár vikur. Við höfum unnið náið með teymi Icelandair Group síðustu 48 tímana til að tryggja að við getum gert sem mest við þetta tækifæri. Það verða engar breytingar í okkar daglega rekstri og við munum halda áfram að þjónusta okkar farþega og áfangastaði með það að markmiði að bjóða lægstu fargjöldin til og frá Íslandi sem og yfir Atlantshafið.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta kemur mörgum ykkar í opna skjöldu og þetta er augljóslega ekki það sem lagt var upp með. Hins vegar, miðað við aðstæðurnar þá tel ég þetta bestu niðurstöðurnar fyrir okkar teymi, okkar farþega, framtíð WOW air sem lággjaldaflugfélags og ekki síst fyrir ferðaiðnaðinn á Íslandi. Ég hvet ykkur öll til að þetta líta á þetta sem tækifæri til að halda áfram á okkar vegferð, nú sem hluti af sterkari hóp sem mun leiða til árangurs til lengri tíma litið. Þakka ykkur öll fyrir ykkar frábærastarf. Það verður starfsmannafundur kl. 12:30 á sjöundu hæð höfuðstöðva fyrirtækisins. Vona að ég sjái ykkur öll þar.“