Edda Ólafsdóttir hefur verið fastagestur Sundhallarinnar í Reykjavík í 82 ár. Segir hún Sundhallarkonum hafa brugðið þegar Sundhöllin var opnuð aftur eftir lokun vegna byggingarútilaugar en þá var þeim vísað út úr Sundhöllinni og í nýbyggingu þar sem þeim var gert að nota aðstöðu þar sem búnings- og baðklefa.
„Var konum sagt að kvennaklefar í Sundhöllinni hefðu skemmst mikið við byggingu útilaugar og væru ónothæfir. Hluti af þeim var eyðilagður vegna breytinga. Ekki nóg með að konum séu vísað út í nýbygginguna heldur verða þær að ganga þaðan langa leið utandyra til að komast inn í Sundhöllina. Þetta fyrirkomulag var viðunandi um tíma meðan á viðgerð kvennaklefa stæði en sá tími er löngu liðinn,“ segir Edda í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag.
Ekki við hæfi að vísa körlum í útiklefa
Ástæða pistilsins er fyrirsögn á grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 13. apríl síðastliðinn. „Karlar verða sendir í kvennaklefann í Sundhöll Reykjavíkur. Loka þurfti karlaklefa vegna viðhalds. Fastagestum brugðið.“
Veltir Edda því fyrir sér hvers vegna karlarnir fái að nota gamla kvennaklefann meðan á viðhaldi stendur á meðan konunum hafi verið hent út.
„Voru þeir ekki ónothæfir vegna mikilla skemmda? Svo hefur konum verið sagt. En ekki þótti við hæfi að vísa körlum, í nokkra daga, í útiklefa meðan á viðhaldi karlaklefa stóð. Sem var aðeins þrif. En ráðamönnum Sundhallar þótti við hæfi að „henda“ konum út úr Sundhöllinni svo orð forstöðumanns sé notað.“
Segir Edda enga viðleitni hafa verið sýnda vegna skemmda klefanna og að ráðamenn hafi hvorki metnað né vilja til verksins.
„Karlar virðast njóta algjörra forréttinda í Sundhöllinni. – Hafi fjárskortur hindrað viðgerð á kvennaklefum Sundhallarinnar ætti þeirri hindrun nú að vera rutt úr vegi.“
Aðstaða fyrir konur algerlega óhæf
Telur Edda að Sundhöll Reykjavíkur hefði átt að varðveita í sinni upprunalegu mynd og að þeir sem hafi staðið að byggingu útilaugarinnar og breytingum á innviðum Sundhallarinnar hafi ekki borið virðingu fyrir verki Guðjóns Samúelssonar arkitekts.
„Sundhöll Reykjavíkur átti að varðveita í sinni upprunalegu mynd. Hún er barn síns tíma og átti að fá að vera það, hún ber vitni um stórhug og metnað þeirra sem reistu hana á erfiðum tímum. Gildi hennar sem frábærs sundstaðar hefur ekki rénað. Hafi þótt nauðsynlegt að byggja útilaug á þessum litla, auða bletti, sunnan við Sundhöllina hefði þurft að haga verki á annan hátt“
Segir hún að konur í borgarstjórn, íþrótta- og tómstundasviði ásamt jafnréttisstofu beri skylda til að sinna eftirliti með framkvæmd jafnréttislaga.
„Það kemur úr hörðustu átt að borgaryfirvöld og ráðamenn Sundhallar, en þeim er skylt að framfylgja jafnréttislögum, skuli sýna konum sem sækja Sundhöllina misrétti sem jaðrar við kvenfyrirlitningu. Sú aðstaða sem Sundhallarkonum er ætluð er algerlega óhæf. Gera þarf við kvennaklefana sem fyrst svo konur fái þá aðstöðu í Sundhöllinni sem þeim var frá upphafi ætluð. Annað væri kynbundið misrétti og er ólíðandi.“