Edda biðst velvirðingar á að hafa ekki greint rétt frá starfsferli sínum

„Edda hefur miðlað því til ritstjórnar að hún hafi í viðtölum fyrir tveimur árum ekki lýst með réttum hætti stöðu sinni gagnvart tilteknum fyrirtækjum á sviði fjármála þegar hún bjó í Danmörku og stundaði nám við Copenhagen Business School árin áður. Hún biðst velvirðingar á missögninni,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Heimildarinnar vegna umfjöllunar um opið bréf Frosta Logasonar um Eddu Falak.

Fréttablaðið greinir frá.

Líkt og greint hefur verið frá sakaði Frosti Eddu um að hafa ekki komið hreint og beint fram um fyrri störf sín. Hún hafi ekki unnið í verð­bréfa­miðlun hjá virtum banka eða hjá lyfjarisanum Novo Nor­disk líkt og hún greindi sjálf frá í fjölmiðlum fyrir tveimur árum.

Forsvarsfólk Heimildarinnar segja bakgrunn Eddu, hvorki nám, námsgráðu né möguleg störf hafa áhrif á hlutverk hennar fyrir fjölmiðilinn.

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að frá því að Edda hóf störf á ritstjórn Heimildarinnar hafi hún fylgt ritstjórnarstefnu og starfsreglum heimildarinnar.

„Ritstjórn Heimildarinnar tryggir og ber ábyrgð á að starfsfólk ritstjórnar fylgi reglum um vinnubrögð blaðamennsku við störf sín. Hvergi hefur borið skugga þar á.“

Nánar má lesa um málið á vef Fréttablaðsins.