Dóra Björt: „Það er okkar ósk að ókyngreind salerni verði viðmiðið“

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn og formaður mannréttinda-, nýsköpunar-, og lýðræðisráðs Reykjavíkur, segir baráttuna um ókyngreind salerni og innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði skila árangri.

Frá þessu greinir Dóra Björt í nýrri skoðanagrein á Vísi.

Dóra Björg segir að barátta mannréttinda-, nýsköpunar-, og lýðræðisráðs Reykjavíkur hafa staðið yfir frá 2018 við upphaf núverandi kjörtímabils. Fyrsta samþykkt þeirra hafi verið að gera salerni í stjórnsýsluhúsnæði ókyngreind með það að markmiði að gera Reykjavík að hinseginvænni vinnustað og bæta aðgengi trans fólks og kynsegin fólks.

Þau hafi síðan verið gerð afturreka með þá ákvörðun, vegna reglugerðar um húsnæði vinnustaða frá 1995.

„Þessi úrelda reglugerð frá 1995 um húsnæði vinnustaða á vegum félagsmálaráðuneytisins gengur í berhögg við lög um kynrænt sjálfræði sem tóku gildi árið 2019 og hið sama á við um reglugerð um hollustuhætti á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er varðar almenningssalerni og klefa. Þessum tveimur reglugerðum hefur ráðið því beitt sér fyrir því að verði breytt svo þær taki mið af þróun samfélagsins og nýjum normum þar sem gert er ráð fyrir fleiri kynjum en hefðbundin kynjatvíhyggja.

Svo að þessi nýju og metnaðarfullu lög séu eitthvað meira en fögur orð á blaði heldur bæti líf trans og hinsegin fólks með beinum hætti. Við vitum að kyn eru ekki bara kyn­færi. Það er kyn­vitundin sem ræður kyni fólks og lög um kyn­rænt sjálf­ræði stað­festa það. Þau gera þér kleift að skil­greina sjálft þitt kyn og veita þér þau réttindi sem fylgja því kyni. Þetta er óháð leið­réttingarferli við­komandi enda ekki öll sem velja að fara í gegnum slíkt ferli,“ segir Dóra Björt meðal annars.

Hún segir baráttuna loksins vera farna að skila árangri.

„Eftir bréfaskriftir, ítrekuð áköll, fjölda áskorana frá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í samráði við og með stuðningi frá hagsmunasamtökunum, innan úr hópi þingmannaliðsins og stúdentahreyfingunni, höfum við loks fengið þau svör að félagsmálaráðuneytið ætli að bæta úr þessu og ráðast í heildarendurskoðun á reglugerð um húsnæði vinnustaða frá 1995 í takt við lög um kynrænt sjálfræði í samráði við ráðið og hagsmunaaðila. Nýlega voru auk þess sett fram drög að nýrri reglugerð um hollustuhætti sem ráðið skilaði umsögn um,“ bætir Dóra Björt við.

Hún segist fagna þessum vendingum en leggi um leið ríka áherslu á að verkefnin klárist og að nauðsynleg skref verði stigin að fullu.

„Það er okkar ósk að ókyngreind salerni verði viðmiðið. Þó salerni og klefar og aðgengi að þeim hljómi mjög hversdagslega þá eru þetta aðstæður, mögulegt öráreiti og jafnvel ofbeldi sem fólk mætir á hverjum degi og getur haft umfangsmikil áhrif á lífsgæði trans og hinsegin fólks,“ segir Dóra Björt.

Hægt er að lesa grein Dóru Bjargar í heild sinni hér.