Davíð Stefánsson hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Mun hann taka við sem annar tveggja ritstjóra blaðsins frá 1. júní. Fréttablaðið greinir frá.
Davíð hefur vakið athygli fyrir þætti sína Ísland og umheimur á Hringbraut, sem fjalla um samstarf Íslendinga við umheiminn á vettvangi efnahagsmála, viðskipta, varna og stjórnmála. Í þáttunum er fjallað um þessi mál á öðruvísi og dýpri hátt en alla jafna er gert í daglegri fréttaumfjöllun. Síðasti þáttur Íslands og umheims verður sýndur á sunnudaginn kemur klukkan 20:00.
Hann tekur við starfinu af Kjartani Hreini Njálsyyni, sem hefur verið ráðinn aðstoðarmaður landlæknis, og verður þar með ritstjóri blaðsins ásamt Ólöfu Skaftadóttur.
Davíð er fæddur árið 1964 og varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1985, stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1995 og hlaut meistaragráðu í stjórnsýslufræðum frá Harvard háskóla, John F. Kennedy School of Government, í Bandaríkjunum árið 1997.
Hann hefur rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki frá árinu 2009, einkum á sviði viðskipta- og verkefnaþróunar með áherslu á endurnýjanlega orku. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru alþjóðleg ráðgjafafyrirtæki, bankar, fjárfestingasjóðir og orkufyrirtæki í Norður- og Suður-Ameríku, Afríku, Evrópu og Asíu auk Íslands.
Þá hefur Davíð meðal annars starfað sem ráðgjafi fyrir Emera Inc. Canada, Reykjavik Geothermal Ltd., Carbon Recycling International og Silicor Materials. Hið síðastnefnda, Silicor Materials, hugðist á sínum tíma reisa sólarkísilver í Hvalfirði, og var Davíð bæði stjórnarmaður og talsmaður fyrirtækisins.