Dagsektir ef kvíðabörn sitja heima?

Soffía Vagnsdóttir, fræðslustjóri á Akureyri, bregst við pistli Óttars Guðmundssonar geðlæknis í Fréttablaðinu í gær með færslu á eigin fésbók. Í færslu sinni stingur hún upp á að foreldrar barna sem treysti sér ekki til að mæta í skólann vegna kvíða verði beittir dagsektum.

Hringbraut fjallaði um pistil Óttars í gær sem vakti mikla athygli. Þar varaði geðlæknirinn við að allir teldu sig nú eiga heimtingu á áfallahjálp og spurði hvort næst yrði kallað eftir henni ef einhver missti af strætó.

Soffía segist setja fram persónulega skoðun sína á fésbókinni en rýna ber í orð hennar vegna reynslu hennar sem fræðslustjóra Akureyrar. Hún skrifar:

„Orð í tíma töluð hjá lækninum. Horfi ég þá til dæmis inn í skólakerfið. Þar er vaxandi hópur barna sem mætir ekki í skólann (nýyrðið skólaforðun) vegna kvíða fyrir einu og öðru. Foreldrar lenda í erfiðleikum með að mæta þessum vanda og treysta sér ekki til að koma börnunum af stað af ótta við að það gangi of nærri þeim.“

Soffía bætir svo við að skólarnir hafi fá úrræði önnur en „fund eftir fund eftir fund eftir fund... sem fjölgar á í hvert sinn af allskonar sérfræðingum eftir því sem vandinn vex og þegar vandinn er orðinn gríðarlega alvarlegur. Engar rannsóknir sýna hins vegar að það sé betra að halda barni heima ef það kvíðir einhverju eða treystir sér ekki til að takast á við daglegar athafnir. Miklu frekar hefur það sýnt sig að með því að koma barni alltaf af stað í skólann en vinna síðan með vandann samhliða, það reynist farsælla og getur leiðrétt hegðun sem hættan er á að fylgi viðkomandi einstaklingi áfram út í lífið. Og það er ekki farsælt fyrir hann.“

Kemur svo að rúsínunni í pylsuendaum í facebook-færslu Soffíu en færslan hefur vakið athygli foreldra. Faðir skólabarns á Akureyri benti Hringbraut á ummæli fræðslustjóra á facebook. Soffía setur reyndar fyrirvara um að hún tali ekki sem embættismaður:

„Þetta er mín persónulega skoðun: Er kannski kominn tími til að taka upp dagsektir í íslenskum skólum? Að fólk greiði sektir ef börn mæta ekki í skólann. Þetta er þekkt í öðrum löndum þar sem meiri virðing virðist borin fyrir skólakerfinu. Barn á að mæta í skólann hvað sem tautar og raular, nema það sé fárveikt. \"Æ ég er svo slöpp/þreytt/vil ekki fara í leikfimi/vil ekki fara í sund, hún var að stríða mér, enginn vill leika við mig...\" rökin gilda þá ekki lengur,“ skrifar Soffía.

Óttar Guðmundsson geðlæknir nefndi dæmi í sínum pistli um áfallahjálp sem nú stæði til boða fyrir litlar sakir,  félagar manns í löggunni sem grunaður var um misferli fengu áfallahjálp. Sama gerðist þegar flugvél í innanlandsflugi lenti í ókyrrð á dögunum og flugþjónn meiddi sig lítillega á fæti. Einnig var boðið upp á áfallahjálp þegar vitni urðu að bankaráni. Dæmi væru um áfallahjálp fyrir aðstandendur þegar gamalmenni deyi.

Niðurstaða læknisins er að maðurinn ráði ekki lengur við uppákomur daglegs lífs. „Tilveran á að vera fyrirsjáanleg og þægileg.“ Fólk beri ekki lengur ábyrgð á eigin viðbrögðum og tilfinningum.“ Rifjar læknirinn upp til samanburðar að langalangamma hans hafi misst 10 börn í gröfina og 3 eiginmenn. Og komst af án áfallahjálpar.