Bylgja Guðrún Brynjólfsdóttir var illa bitin af lúsmý fyrir ári síðan en hún fékk mikil ofnæmisviðbrögð sem erfitt var að meðhöndla.
Bylgja setti myndir inn á Facebook-hópinn Lúsmý á Íslandi og varar aðra með lélegt ónæmiskerfi við því að ferðast um Grímsnesið og gista á tjaldsvæðinu Hömrum á Akureyri.
„Það er sirka ár síðan ég var bitin, en þetta tók um þrjá mánuði að hverfa alveg. Í dag er ég með ör eftir bitin og ég þori ekki að fara í neinar útilegur eða sumarbústaði, ég bý á Blönduósi og hef ekki orðið vör við lúsmý þar en ég hef alltaf viftu í gangi í herberginu þegar èg sef því að èg er svo skíthrædd við bit, tek enga sénsa,“ segir Bylgja.
Í færslu sinni á Facebook segir Bylgja að hún hafi þurft Dermovat krem og Atarax lyf vegna bitanna í fyrra en að þau hafi ekki farið fullkomlega fyrr en hún fékk sýklalyf.
„Ég veit að þetta getur verið einstaklingsbundið, en mig langaði bara til að vara við þessu,“ segir Bylgja í færslu sinni á Facebook.