Boðar einn ríkistónlistarskóla

Illugi Gunnarsson menntamálaráðhera er harðlega gagnrýndur af skólastjórum tónlistarskóla hringinn í kringum landið fyrir þá ráðagerð að setja allt fjármagn ríkisins sem ætlað er til framhaldsnáms í tónlist til eins tónlistarskóla í Reykjavík.


Þetta hefði þær afleiðingar að aðrir tónlistarskólar væru komnir upp á náð og miskunn sveitarfélaganna um fjármagn, en ríkið gerði tímamótasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga árið 2011 um "eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda" en sá samningur rann út um síðustu áramót. Augljóst er af ráðahag núverandi menntamálaráðherra að framhald verður ekki á þeim samningi en það getur hæglega sett tónlistarkennslu víða um land í uppnám og skekkir augljóslega stöðu tónlistarnáms í landinu.


Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að nýlega hafi verið skipaður starfshópur um nýtt fyrirkomulag á stuðningi ríkisins við tónlistarnám og vekur þar sérstaka athygli að ekki var leitað til samtaka tónlistarkennara eða tónlistarskóla um aðkomu að málinu.


Árni Harðarson skólastjóri Tónlistarskóla Kópavogs segir við blaðið að greinilega eigi að færa tónlistarnám í landinu mörg ár aftur í tímann.