Boða til mótmæla á austurvelli í dag vegna komu pence – talsvert rask á umferð og bann við drónaflugi vegna komunnar

Samtök hernaðarandstæðinga ásamt tíu öðrum samtökum hafa boðað til mótmælafundar vegna komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins í dag. Pence mun koma víða við á stuttu stoppi sínu á landinu, þar sem hann mun meðal annars funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Í lýsingu á viðburðinum á Facebook segir:

„Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna er á leið til Íslands. Stefna hans og stjórnarinnar í Hvíta húsinu misbýður fjölmörgum Íslendingum. Fjöldi félagasamtaka hefur tekið höndum saman um að skipuleggja útifund sem verður vettvangur fólks til að tjá afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinseginfólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk.“

Flutt verða fimm stutt ávörp, en ræðumenn verða Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, María Helga Guðmundsdóttir fyrrverandi formaður Samtakanna 78, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og umhverfisverndarsinni, Randi Stebbins mannréttindalögfræðingur og Isabella Rivera sem hefur búið sem innflytjandi í Bandaríkjunum.

Mótmælin hefjast í dag á Austurvelli klukkan 17:30.

Rask á umferð og bann við drónaflugi

Greint hefur verið frá því að búast megi við raski á umferð sem mun myndast vegna komu Pence. Sæbraut á milli Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar verður lokað fyrir akandi umferð milli klukkan 13:30 og 16:00. Lokunin á ekki við um göngu- og hjólastíg við Sæbraut.

Einnig verður lokað fyrir alla umferð inn á Reykjanesbrautina í austurátt við komu fylgdar Pence og svo öfugt við brottför fylgdar, eða í vesturátt. Ekki er vitað um nákvæma tímasetningu en lokað verður um það bil 5 mínútum áður en fylgdin fer á brautina og mun lokunin standa yfir í 5 mínútur eftir að fylgdin verður komin á brautina. Jafnframt má búast við tímabundnum umferðartöfum annars staðar á svæðinu af sömu ástæðu. Lokunin mun að hámarki standa yfir í 20 mínútur að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum.

Þá hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að leggja tímabundið bann við drónaflugi yfir Höfða í Borgartúni og nágrenni, en bannsvæðið afmarkast af Sæbraut, Kringlumýrarbraut, Laugavegi og Snorrabraut líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Bannið, sem gildir til kl. 17 í dag, gildir líka um strandlengjuna norðan Sæbrautar.