Æ fleiri bandarískar viðskipta- og hátíðarhefðir setja svip sinn á íslenskt samfélag og það síðasta af þeim toga sem heldur nú innreið sína á eyjuna bláu er svokallaður Black Friday sem er einn allsherjar afsláttardagur í aðdraganda hátíðanna.
Úti í Bandaríkjunum er þessi svarti föstudagur haldinn í tengslum við þakkargjörðarhátíðina, en hér heima hefur þróunin orðið sú að fjöldi fólks er farinn að bíða með jólainnkaupin sín þar til sá svarti rennur upp með alls konar gylliboðum.
Það var Rúmfatalagerinn sem reið á vaðið í þessum efnum á Íslandi og hefur sölufólkið á þeim bænum skapað á vissan hátt hefðina hér á landi. Og landsmenn hafa heldur betur gengið á lagið, enda nú er svo komið að þær verslanir sem bjóða upp á svartan föstudag geta reitt sig á fjölmenni framan við búðardyrnar að morgni þessa svarta dags, slíkar eru vinsældir þessa ameríska siðs hér á landi nú þegar.
Og þá er bara að klæða sig í kuldagallann og koma sér fyrir í röðinni framan við Rúmfatalagerinn á ellefta tímanum í fyrramálið eða öðrum þeim búðum sem bjóða upp á dúndurtilboð í anda þessarar nýjustu amerísku hefðar sem Íslendingar virðast hafa fallið fyrir.