Björn Ingi segir Þórólf vita meira en hann segi: „Það verður allt vitlaust rétt fyrir kosningar“

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru, segir að Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og fólkið í kringum hann viti meira um framhaldið í baráttunni við Covid-faraldurinn en þau gefi upp við almenning.

Björn Ingi, sem hefur helgað sig umfjöllun um faraldurinn upp á síðkastið, ræddi stöðuna í þættinum Harmageddon í gær. Var hann þá spurður um hvers vegna það var ekki upplýsingafundur Almannavarna. „Þórólfur er búinn að skila ríkisstjórninni minnisblaði um að hann telji að það þurfi að vera ýmsar aðgerðir í gangi þangað til faraldurinn er yfirstaðinn. Það geta verið tvö – þrjú ár, það veit enginn. Ríkisstjórnin þarf að ákveða hvað hún á að gera. Ef hún fer að tillögum hans þá verður allt vitlaust, ef hún gerir það ekki þá verður allt vitlaust rétt fyrir kosningar,“ segir Björn Ingi. „Þetta er ekki öfundverð staða.“

Björn Ingi segir að Þórólfur viti að það verði sprengja í smitum nú þegar skólarnir hefjast. „Það er óhjákvæmilegt. Það blandast allir hópar saman.“

Björn Ingi segir að Þórólfur viti meira en almenningi sé sagt: „Mér finnst það blasa við að Þórólfur of fleiri viti meira en okkur sé beinlínis sagt.“

Mörg smit eru þessa dagana en fáir eru veikir. Björn Ingi hefur rætt það við bæði Þórólf og Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um að útbreidd smit séu eina leiðin til að ná hjarðónæmi en báðir hafi ekki viljað segja það beint út. „Auðvitað, undir niðri, er þetta eina leiðin. Það þýðir ekki að það sé markviss áætlun um að gera þetta, heldur er þetta bara… eina leiðin.“