Björk Guðmundsdóttir mun ekki verða með tónleika á næstu Iceland Airwaves hátíðinni sem fram fer í nóvember í Reykjavík. Hún hefur tilkynnt opinberlega að hún hafi ákveðið að aflýsa tónleikahaldi út þetta ár. Ástæðan er ókunn.
Í tilkynningu hennar kemur fram að vegna óviðráðanlegra skipulagsárekstra geti Björk ekki komið fram á nokkrum tónleikum sem til stóð að hún stæði fyrir í sumar og haust. Björk hafi verið mjög spennt og hlakkað til tónleikanna. Nýjar dagsetningar fyrir tónleikanna verði kynntar um leið og hægt er. Auk Airwaves tónleikanna ráðgerði Björk að koma fram á tónleikum í Saint-Malo í Frakklandi þann 15. ágúst og Pitchfork tónlistarhátíðinni í París þann 30. október. Tónleikar hennar hér á landi áttu að fara fram í Hörpu dagana 4. nóvember og 7. nóvember
Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðilum Iceland Airwaves verða miðar sem keyptir voru á tónleikana 4. nóvember endurgreiddir á næstu dögum. Miðar sem keyptir voru með greiðslukortum verða endurgreiddir sjálfkrafa en aðrir miðahafar á tónleikana 4. nóvember verða að snúa sér til miðasölu Hörpu.