Bitcoinið þarf meiri orku en heimilin

Orkuþörf hraðvaxandi bitcoin-vinnslu á Íslandi stefnir í að verða meiri á þessu ári en samanlögð orkunotkun allra íslenskra heimila. Haft er eftir Smára McCarthy þingmanni Pírata í AP-frétt að ræða þurfi skattlagningu þeirra aðila sem stunda vinnslu bitcoin og annars rafeyris á Íslandi. Þeir borgi nú ekki skatta hér af milljarða tekjum á sama hátt og önnur fyrirtæki sem stunda hér rekstur. Nauðsynlegt sé að ræða skattlagningu starfseminnar.

Jóhann Snorri Sigurbergsson forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku segir í AP-fréttinni að orkuþörf bitcoin vinnslu hér á landi tvöfaldist á þessu ári og fari upp í 100 megavött. Hann segir að fyrir aðeins fjórum mánuðum hefði hann ekki getað séð þessa þróun fyrir. Hann sagðist t.d. nýkominn af fundi með fyrirtæki sem vildi kaupa á einu bretti 18 megavött til vinnslu á bitcoin.

Fjöldi erlendra fjölmiðla hefur birt frétt um málið síðustu daga, þ.á.m. BBCFortune og The Telegraph.

Bitcoin vinnslan er orkufrek, í sem einföldustu máli má segja að hún felist í að tölvukeyra sameiginlegt og sístækkandi bókhaldskerfi allra bitcoinviðskipta í skiptum fyrir smáræði af Bitcoin. Eftir því sem kerfið stækkar, því orkufrekari verður þessi keyrsla. Nú er orkunotkun alls kerfisins á heimsvísu nærri því að vera sú sama og heildarorkuþörf Írlands.

Sem dæmi um virkjanir sem HS orka horfir nú til til að anna eftirspurninni er 9,9 MW virkjun sem nýlega var samþykkt í Tungufljóti í ósnertu kjarrlendi milli Gullfoss og Geysis. Virkjunin þurfti ekki að fara í gegnum Rammaáætlun þar sem hún er undir 10 MW að stærð.

Smári McCarthy segir í AP-fréttinni að við \"séum að setja tugi, jafnvel hundruð megavatta í framleiðslu einhvers sem sé óáþreifanlegt og sem hafi ekkert notagildi fyrir venjulegt fólk sem lifir utan heims áhættuviðskipta.\"