Þórey S. Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða sagði í þættinum Okkar fólk með Helga Péturssyni í gærkvöld að lífeyrissjóðir myndu án efa skoða vel hugmyndir Helga Vilhjálmssonar um byggingu íbúða fyrir aldraða.
Helgi, sem einnig var gestur í þættinum, hefur lengi vakið athygli á þeirri skoðun sinni að lífeyrissjóðir ættu að fjármagna byggingu lítilla íbúða fyrir eldra fólk í tengslum við þjónustukjarna. Íbúðirnar yrðu um 28 - 30fm með öllum þægindum sem einstaklingar og hjón þyrftu á að halda, en hefðu þann kost að íbúar væru í tengslum við annað fólk og þjónustu þegar það þyrfti á að halda.
Þórey sagði í þættinum, sem sjá má hér á vef stöðvarinnar, að ef Helgi setti saman fullbúna hugmynd og viðskiptaáætlun væri hún þess fullviss að stjórnendur lífeyrissjóða myndu skoða málið vandlega, enda væru lífeyrissjóðir meðal stærstu lánveitenda til íbúðabygginga á landinu.
Okkar fólk er frumsýnt á þriðjudagskvöldum klukkan 20:00, en endursýnt næst á föstudagskvöld.