Aukin viftusala rakin til lúsmýs

Sala á viftum hefur aukist mikið í sumar miðað við undanfarin sumur. Ástæðan er rakin til lúsmýs sem herjar nú á landann, en flugan athafnar sig fyrst og fremst í dúnalogni. Hæg­ur andvari frá viftu get­ur þannig komið í veg fyr­ir bit.  Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Sveinn Sveinsson, vöruflokkastjóri Byko segir í samtali við Morgunblaðið að sölutölur á viftum í versluninni hafi tífaldast í sumar miðað við síðustu tvö ár. „Þetta er örugglega lúsmýið og hitinn. Fyrst og fremst held ég að þetta sé lúsmýið. Fólk hefur greinilega hlustað á það hvað er hægt að gera til að verja sig,“ segir hann og bætir við að heppilegt hafi verið hversu stóran lager Byko hafi átt af viftum í sumar.

Kristín Sævarsdóttir, vörustjóri hjá Húsasmiðjunni, segir sölu á viftum hafa tvöfaldast síðan í fyrra og að þær hafi víða selst upp í verslunum fyrirtækisins þetta sumarið. Hún telur líkt og Sveinn að hitinn og lúsmýið sé líkleg ástæða fyrir þessari auknu sölu.

Þá segir Jóhann Viðarsson, sölustjóri Heimilistækja, að viftur í versluninni, séu nánast allar uppseldar. Viftusalan hafi stóraukist miðað við undanfarin sumur og segir hann að verslunin eigi von á stórri aukapöntun á næstu tveimur til þremur vikum. „Við tókum inn einhver 800 stykki af viftum núna í apríl sem eru allar farnar. Ég gæti trúað því að þetta séu um 1.000 viftur sem við höfum selt í sumar,“ segir hann.

Jóhann er á sama máli og Sveinn og Kristín um ástæður þessarar auknu sölu: „Það eru bæði búin að vera óvenju mikil hlýindi og svo er það lúsmýið. Það er ekki spurning.“