„Ekki spila með framtíðina okkar. Við styðjum áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag og stöndum saman gegn einangrunarhyggju.“
Alls eru andlit 272 ungmenna á auglýsingu í Fréttablaðinu í dag undir þessari yfirskrift. Kristinn Árni L. Hróbjartsson sendi tilkynningu á fjölmiðla þar sem greint er frá hvernig auglýsingin varð til og afhverju. Í tilkynningunni segir:
„Auglýsingin er, eins og fram kemur í henni, kostuð af fólkinu á myndunum. Fólkið er allt undir fertugu og spannar megnið af hinu pólitíska litrófi, bæði flokksbundið og óflokksbundið. Fólkið er af öllum kynjum, með ólíkan bakgrunn, búsett erlendis og víðsvegar um landið.“
Hringbraut hafði samband við Kristin Árna og spurði hvernig það hefði atvikast að hópurinn hefði auglýst í Fréttablaðinu.
„Þetta er einungis bolti sem byrjaði að rúlla og endaði með þessari opnu. Þau sem standa bakvið hópinn er fólkið á myndinni,“
svaraði Kristinn.
Í tilkynningunni segir enn fremur:
„Stigvaxandi umræða um EES-samninginn undanfarin misseri, sem hefur því miður verið knúin áfram af síendurteknum rangfærslum og ósannindum, nú síðast um þriðja orkupakkann, er meðal ástæðna þess að ungt fólk úr öllum áttum sá ástæðu til að árétta þessi skilaboð.“
Þá segir einnig:
„Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 svaf ungt fólk á verðinum með afleiðingum sem eru öllum ljósar. EES samningurinn og annað alþjóðlegt samstarf hefur fært Íslendingum lífsgæði ótal tækifæri sem væri óhugsandi að vera án. Tækifæri eins og frelsi til að ferðast, stunda viðskipti, búa og mennta okkur í Evrópu og lengi mætti telja.
Þetta eru hlutir sem við öll njótum góðs af og lítum í dag á sem sjálfsagðan hluta af okkar dagsdaglega lífi. Því segjum við einum rómi: Ekki spila með framtíð okkar.“