Auðvitað þarf söngkonan Björk að sæta gagnrýni eins og hver annar áberandi Íslendingur, en ummæli þingsmannsins Jóns Gunnarssonar um hana fóru yfir strikið og lyktuðu lítið eitt af hroka.
Þetta var mat þeirra Eyrúnar Magnúsdóttur, ritstjóra Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, nýráðins fréttastjóra Fréttatímans sem settust á rökstóla með Sigmundi Erni í Ritstjórum gærkvöldsins, en þáttinn má sjá í heild sinni hér á vef stöðvarinnar. Fyrsta mál á dagskrá þáttarins var annars Albaníumálið, en þar mætti halda að sjálfur Ragnar Reykás hefði haldið um stjórnartaumana, slík var u-beygjan sem málið tók á einum sólarhring eftir að Alþingi fór svo að segja allt í keng út af samviskubiti sínu í garð burtrekinna fjölskyldna með langveik börn sín í fanginu. Þær Eyrún og Þóra Kristín voru sammála um að íslenska kerfið væri alltof einstrengnislegt í þessum efnum og tæki jafnan harðari afstöðu fram yfir mannúð; Albaníumálið væri þar æpandi dæmi um kantaða stjórnsýslu sem þyrfti að endurskoða - og hélt Þóra Kristín því til haga að bæði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar þingsins væru þeirra skoðunar - og það væri vel.
Grafísk átök Kára Stefánssonar og Sigmundar Davíðs voru vitaskuld brotin til mergjar, svo og stóra Jónsmálið sem fjallar um uppnefni á báða bóga í tilviki Bjarkar Guðmundsdóttur, söngkonu og Jóns Gunnarssonar, þingmanns sem tók svo þann afleggjara í gær eftir að Birgitta Jónsdóttir, þingkona lýsti því yfir að ekki væri hægt að sitja við hliðina á Jóni í þinginu, slíkur tuddi væri hann að sessunautar hans þyrftu á áfallahjálp að halda (sem hún hefur svo beðist afsökunar á í dag). Þóru fannst málið vera stormur í vatnsglasi, en sem fyrr segir töldu þær stöllur Jón hafa farið yfir strikið þótt auðvitað væri það svo að Björk væri ekki hafin yfir gagnrýni.
Þá er og spurt af hverju krataflokkarnir hér á landi ná ekki vopnum sínum, en Þóra Kristín var þar á því að Samfylkingin væri alltof fyrirséð og talaði ekki lengur til hjartans; í hvert sinn sem ráðamenn hennar opnuðu munninn væri augljóst hvað þeir myndu segja. Í þessu efni undraðist Eyrún að Björt framtíð væri á sama lágflugi og Samfylkingin með jafn sérstæðan foringja og Óttarr Proppé við stýrið, en kannski væri það svo að þessir flokkar töluðu bara inn í tómið, hefðu ekki lengur svo mikið fram að færa sem væri í takti við vanda samfélagsins. Þóra Kristín mat það svo að vinstriflokkar í Evrópu væru almennt í vanda, hægra lýðskrumið hefði haft af þeim lausafylgi alþýðunnar.
Loks var fjallað um þá skrýtnu stöðu sem Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra er í innan ríkisstjórnar þar sem hann er innlyksa með RÚV-mál sitt - og jafnvel niðurlægður af samráðherrum sínum eins og Þóra Kristín kemst að orði í þættinum sem er frumsýndur klukkan 21:30 á þriðjiudagskvöldum og endursýndur í allan dag.