Atli Fannar bjó til skopmynd af Brynjari – Þá mætti ritstjórinn

Allt ætlaði um koll að keyra á Twitter í gærkvöldi og í nótt þegar Atli Fannar Bjarkason, fjölmiðlamaður og samfélagsmiðlastjóri RÚV, birti skopmynd sem sýnir Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í líki trúðs. Brynjar var gestur Kastljóss á RÚV í gærkvöldi þar sem hann ræddi um „skæruliðadeild“ Samherja með Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans. Margir voru ósammála málflutningi Brynjars á Twitter.

Atli Fannar birti svo eftirfarandi mynd á Twitter og sagði „kastljósið í kvöld var afhjúpandi“:

Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála og almannatengill, spurði svo:

„Er þetta almenn afstaða hjá starfsmönnum RÚV?“

Atli Fannar spurði hvers vegna hann héldi það og Gísli svaraði:

„Af því að þú ert starfsmaður ríkisfjölmiðilsins og teiknar þingmann XD upp sem trúð á samfélagsmiðlum. Bara að spá hvort við megum eiga almennt von á því í komandi kosningabaráttu.“

Þá svaraði Atli: „Hmm ok. Heldurðu semsagt að allt sem ég segi hér á forritinu sé á einhvern hátt opinber stefna RÚV?“

Gísli sagði að svo væri ekki og honum fyndist Atli Fannar að öllu jafna finnst mjög skemmtilegur á Twitter. „En sama hvaða skoðun Brynjar kann að hafa, þá finnst mér merkilegt að starfsmaður fjölmiðils í eigu ríkisins skuli teikna hann upp sem trúð. Það er því kannski ekki óeðlilegt að spyrja.“

Því svaraði Atli:

„Finnst spurningin reyndar óeðlileg. En það er löng hefð fyrir því að gera grín að stjórnmálafólki á Íslandi, t.d. í skopmyndum prentmiðla eða grínþáttum í sjónvarpi. Viðurkenni að ég bjóst ekki við að einhver mynd hneykslast fyrir hönd Brynjars Níelssonar, af öllum mönnum.“

Karen Kjartansdóttir, almannatengill sagði svo: „Aðeins Sigmund hafði leyfði til að teikna stjórnmálamenn í spaugilegu ljósi. Enginn annar mun nokkur tímann erfa það leyfi.“

Í kjölfarið hjóluðu margir í Gísla Frey fyrir spurninguna og vísuðu í skilorðsbundinn dóm hans í tengslum við lekamálið, en hann var aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur:

„Fékkstu ekki fangelsisdóm síðast þegar þú ákvaðst að beita þér fyrir málstaðinn?“ Gísli svaraði því ekki.

Aðrir sneru upp á spurninguna, þar á meðal Svala nokkur sem spurði: „Má líta sem svo á að orð Brynjars Níelssonar séu opinber stefna Sjálfstæðisflokksins?“