Árný vill að jólasveinarnir hætti að gefa í skóinn

Árný Elínborg leggur til að jólasveinarnir hætti að gefa börnum í skóinn og að foreldrar taki í staðinn við keflinu.

Árný skrifaði pistil sem var birtur á Vísi.is í gær.

Kveikjan að pistli hennar var tal þriggja barna sem voru að ræða skógjafir og bera saman bækur sínar. Árný segir mikinn mun hafa verið á gjöfum barnanna.

„Eitt barnið fékk ekki gjöf, ekki einu sinni kartöflu, annað barnið fékk hóflega gjöf en það þriðja fékk gjöf sem er dýrari en flestar jólagjafir. Þegar ljóst var hvernig gjafir þau hefðu fengið sló smá þögn á þau sem fengu minna og sá sem ekkert fékk var bersýnilega svekktur.

„Varstu óþekkur?“ spurði sú sem fékk þá hóflegri. „Ég veit það ekki,“ svaraði strákurinn. Síðan fór allt samtalið í að ræða risastóra gjöf þess þriðja í þaula,“ skrifar Árný í pistli sínum.

Árný segir jólasveinana þó mega halda áfram að koma til byggða, skella hurðum, stela skyri, sníkja kerti og fleira. Hún sé einungis að leggja til að þeir hætti að gefa í skógjafir til að börnum sé ekki mismunað af jólasveinunum sjálfum.

Þá veltir hún upp þeirri hugmynd að foreldrar taki við af jólasveinunum með skógjafirnar.

Að sögn Árnýjar yrði jólasveinum áfram tekið fagnandi á jólaskemmtanir „En kannski séu gjafirnar í skóinn ykkur ofviða sem heild. Ég geri mér grein fyrir að um þetta verði samningaviðræður ykkar á milli, og milli ykkar og foreldra. En hugsið allavega málið.“

Fréttin hefur verið leiðrétt.