Árni páll segist hafa lent í hakkavél

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að umræðan um stjórnarskrármálið hafi verið óboðleg á köflum. Fólk sem hafi áhuga á stjórnarskránni þori ekki að blanda sér í umræðuna, meðal annars eftir að hafa fylgst með því hvernig hann hafi lent í hakkavél í þessu máli.
 

Árni Páll var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun, en gustað hefur um Árna Pál eftir ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, í heimildarmyndinni „Jóhanna - Síðasta orrustan“.

Jóhanna sagði eftir frumsýningu myndarinnar í gær að Árni Páll hefði ekki stungið sig í bakið í stjórnarskrármálinu - menn hafi aftur á móti greint á um hvernig ætti að ljúka málinu.

Árni Páll sagði á Morgunvaktinni að fjöldi fólks hefði borið stjórnarskrármálið fyrir brjósti áratugum saman og talað fyrir breytingum áratugum saman. „Og mér finnst á köflum hafa gætt í umræðum um þetta mál á síðustu misserum einhverrar rétttrúnaðarherferðar - að annað hvort skrifir þú upp á heilan pakka gagnrýnislaust eða þú ert svikari, þjóðníðingur eða handbendi ráðandi afla. Þetta er bara óboðleg umræða,“ sagði Árni Páll.

Hann segist finna að þúsundir manna í samfélaginu hafi áhuga á stjórnarskránni og breytingum á henni. „Þeir horfa á þessa umræðu og þora ekki að stíga inn á sviðið. Sjá hvernig fólk hefur hakkað mig í sig og hvernig fólk hefur talað um mig og mína framgöngu.“

Árni Páll segir komið nóg af þessari orðræðu. Ekki sé hægt að leiða umræðuna áfram á forsendum „maóískrar“ rétttrúnaðar-orðræðu. „Þar sem sumir eru góðir og aðrir vondir. Það eiga allir rétt á því að tala um stjórnarskrána og það á treysta þjóðinni fyrir þessu máli. Við eigum ekki að loka það af hjá afmörkuðum klíkum og láta þær ráða því hvernig stjórnarskráin lítur út.“

Árni Páll sagðist vona að það kæmi eitthvað gott út úr stjórnarskrárnefnd - þar væri verið að vinna af heilindum og allir flokkar sætu enn við borðið. Hann sagði þó að ríki þar sem meirihlutinn setti stjórnarskrá og kúgaði minnihlutann til að þola hana væri ekki ríki sem hann vildi.