Andlátum vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja fækkar

Samkvæmt tölum frá SÁÁ hafa níu látist vegna ofneyslu lyfsseðilsskyldra lyfja á þessu ári. Á sama tíma á síðasta ári höfðu 20 látist. Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri SÁÁ, segir aukna vitundarvakningu um skaðsemi lyfjanna hljóta að hafa áhrif.

Á árunum 2001-2015 létust að meðaltali 15 manns undir fertugu á ári vegna ofneyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum. Árið 2016 hækkaði sú tala upp í 27 og ári seinna létust 25 manns. Árið 2018 létust alls 33 vegna ofneyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum, þar af 20 frá janúar til maí. Eins og áður segir hafa níu látist á sama tímabili á þessu ári og því er nokkurrar fækkunar að merkja.

Valgerður segir í samtali við RÚV að umræða um þessi mál sé nauðsynleg. „Bæði almenningur og áhugafólk, aðstandendur, fjölmiðlar, líka aðgerðir frá heilbrigðisráðuneytinu, það voru aðgerðir sem voru gerðar líka inn í lyfjaafgreiðslu og reglum varðandi það og fleiri læknar sem tóku það til sín, breytingar á lyfjaútskriftum, það var ýmislegt sem gerðist síðasta ár þannig að það er erfitt að segja hvort það hafi í raun haft áhrif, að minnsta kosti er þetta skárra.“

Mun fleiri greinist þó með fíkn í sterk verkjalyf en áður. „Þar sem við merkjum augljóslega aukningu er aukning í ópíóíðafíkn, við greinum miklu fleiri með það núna og setjum jafnframt fleiri á þessa lyfjameðferð eða viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn, Þetta er það sem við höfum séð aukast síðustu þrjú árin,“ segir Valgerður.