,,Einnar snerti reglan” er ein af þeim góðu leiðum sem nefndar voru í þættinum ,,Fólk með Sirrý” á Hringbraut í gærkvöld. Þar var rætt um heimilishald og þrif á heimilum. Félagsráðgjafinn Íris Eik Ólafsdóttir nefndi meðal annars ,,Einnar snerti regluna” sem gengur út á það að allir hlutir á heimilinu þurfi að eiga sinn stað og þegar búið er að snerta hlutinn einu sinni á að ganga frá honum aftur.
Þegar finna þarf smáhluti eins og t.d. heftara eða límband fer oft allt á hvolf því hlutirnir eiga ekki sinn stað á heimilinu og ekki er gengið frá þeim aftur jafnóðum. Íris Eik nefndi mörg fleiri góð ráð og það var mikil hlegið í þættinum því rusl og drasl á heimilimum getur oft verið þrælfyndið mál. Hins vegar getur skítugt og ruslaralegt heimili líka verið dauðans alvara. Íris Eik hefur í starfi sínu sem félagsráðgjafi hjá Skipulagslausnum og Áfalla- og sálfræðiðstöðinni oft séð dæmi um það hvernig fólk getur misst tökin á lífi sínu og heimilið ber þess merki. Þegar fólk fær aðstoð og kemur heimilinu í gott lag þá gerast oft róttækar breytingar á lífi fólks.
Allir gestir þáttarins voru sammála því að yfirfullt heimili, þar sem allt of margir hlutir safnast upp, er eitt stærsta vandamálið og það gæti verið fín vorhreingerning að gefa eða selja föt og hluti sem ekki hafa verið notaðir lengi.