Aðsóknarsprengja í dimmuborgum

Metfjöldi ferðamanna heimsótti Dimmuborgir um liðna helgi þegar farþegar af skemmtiferðaskipi fóru á staðinn á meðan skipið lá við bryggju á Akureyri.

Fyrsta skemmtiferðaskipið kom í höfn á Akureyri um síðustu helgi. Eins og vanalega fór mikill fjöldi farþeganna austur í Mývatnssveit. Samkvæmt teljara í Dimmuborgum varð aðsóknarsprenging þar sama dag og farþegarnir úr skemmtiferðaskipinu komu. Um eitt þúsund gestir sóttu staðinn um hádegið síðastliðinn laugardag samkvæmt teljaranum. Það er margföld sú umferð sem er þar að jafnaði dag hvern á þessum árstíma. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar.

Þar segir einnig að vænta megi þess að umferð í Dimmuborgum muni enn vaxa í sumar þegar háönn skapast í ferðaþjónustu.