Að kveðja fokker sinn með kurt og pí

Ég var sex ára, held ég. Einmitt að safna þessum fyrstu heildstæðu minningum sem hugurinn getur geymt.

Ég man að peysan var að mestu svört, en tindarnir í bekknum býsna mógulir - og þetta var eina peysan sem ég átti þetta sumarið; heklupeysa úr dralon, níðsterk og hélt sér hvernig sem hamast var í útileikjunum.

Á fótum var ég í ökklaskóm úr striga - og þaðan á legg í terlínbuxum bróður míns, bættum vitaskuld, enda hnén sú eilífa skráma sem skrifar örin manns í ævina.

Og svona gekk ég upp stigann framan við Fokkervélina úti á velli á sjöunda áratug síðustu aldar, sem var fyrsta flugvélaða upplifun mín; hafði sumsé fengið leyfi til að skoða mig um í þessu mikilfenglega loftfari sem hafði bæst í flugflota Íslendinga - og var eiginlega endanleg staðfesting þess að það væri líka hægt að fljúga með fjölskylduna á milli Akureyrar og Reykjavíkur, en ekki aðeins að hossast í bílveiki og ælum um heiðar og skrykkjótta vegi sem tók hið minnsta hálfan sólarhring með nestispásum við Borgarvirki, Fornahvamm, Hvítárbrúna og kannski Botnsána ef það hafði púnkterað oftar en einu sinni á leiðinni suður.

Fokker.

Meira að segja Friendship.

Hvað hefur verið vinalegra í háloftunum frá því maður var í heklupeysunni, gæruúlpunni, axlapúðajakkanum, ullarfrakkanum og 66-gráðu-úlpunni? Allan tímann að hossast yfir og undir þessum hvössu og yggldu fjallsbrúnum sem skrifa veðrin sinni skjálfandi hendi, en eru þess á milli svo lygn og ljúf að loftfarið hefur liðið um blámann eins og staðfugl í stöðugu sumri.

Þetta er orðið langt vinasamband milli farþega og flugvélar. Og breytingin á háttum þeirra fyrrnefndu svo mikil að brosið færist yfir andlit manns; muniði til dæmis þegar mátti reykja öðru megin í vélinni? Hver ákvað það eiginlega? Öðrumegin? Gott ef ekki vinstra megin! En ekki hinum megin! Það var eitt þessara fyrstu reyklausu svæða í lífi minnar þjóðar.

Og minningarnar - já, hversu margar eiginlega; þegar vélin tók dýfu og konan við hlið mér missti dunkinn í fangi sér og allar smákökurnar dreifðust eftir endilangri vélinni, ellegar þegar vélin skrúfaði sig niður yfir Pollinum og gubbið úr einum fór hringinn um vélina, að ekki sé minnst á feita karlinn aftast sem festist svo rækilega í sætinu að fjóra fíleflda karlmenn þurfti til að tosa hann á lappir.

En aldrei breyttist vélin, að manni fannst, ólíkt farþegum eða veðrinu. Og heldur ekki flugfreyjan, svo sem sýndist; á eilífum þönum í allri sinni limamjúku jafnvægislist með fangið fullt af greiðasemi og góðri trú. Aldrei hrædd, aldrei efins, alltaf brosandi. 

Nú er komið að því að kveðja vin.

Takk minn Fokker.

Takk minn Friendship.

Takk minn vinur fyrir að komast alltaf alla leið, þrátt fyrir nudd á stundum, já, gubb og galnar stundir.