Á bilinu 600-1000 skipsflök í sjónum við ísland

„Við getum búist við að í kringum landið sé að minnsta kosti um 600 og allt upp í 1.000 skipsflök frá ýmsum tímum, gróft áætlað,“ segir Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur sem starfar hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, í viðtali í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.

Sem fornleifafræðingur sker Ragnar sig úr að því leyti að flestir þeirra einbeita sér að fornleifum á landi en sjálfur hefur hann kannað heimildir um skip og báta sem hafa sokkið hér við land allt frá því um árið 1100. „Við erum náttúrulega bara með helminginn af sögunni í landi, hinn helmingurinn er úti í sjó. Varðveislan í sjó er oft betri ef aðstæður eru góðar,“ segir hann.

„Ég byrjaði á verstöðvunum og sá þá að ég þyrfti að fara meira út í sjóinn. Þegar ég var síðan að vinna í hvalveiðistöðvunum langaði mig til að sjá hvað er fyrir framan þær úti í sjónum, og það var í raun í aðalástæðan fyrir því að ég fer síðan út í sjó. Strax og ég gerði það þá komu í ljós alls konar minjar, gripir, tól og tæki sem hvalveiðimennirnir notuðu, auk þess sem þar eru heilu hvalbeinakirkjugarðarnir,“ segir Ragnar einnig.

Hann telur tvö skipsflök, jafnvel þrjú, vera í nágrenni við Viðey. „Það er dálítið mikið af minjum í kringum Reykjavík. Flestallt er það frá seinni hluta 19. aldar og fram eftir 20. öld.