25% fengu enga leiðréttingu!

Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta í Reykjavík, segir að stjórnvöld hafi sniðgengið 25% þjóðarinnar í skuldaleiðréttingunni svokölluðu. Þetta kemur fram í svari hans til upplýsingaveitunnar spyr.is, samstarfsaðila Hringbrautar.


Meðal þeirra sem Gísli Örn segir að stjórnvöld hafi sniðgengið eru lögaðilar, öldrunarfélög, íbúðir fyrir öryrkja og aldraða, stúdentafélög og fólk sem býr í búsetuíbúðum. Gísli Örn segir vel mega færa rök fyrir því að jafnræðisregla hafi verið brotin og vinna stærstu búsetufélögin nú að greinagerð varðandi rétt sinn. Í svari Gísla kemur fram að mikill meirihluti allra fasteigna hér á landi, sé fjármagnaður með verðtryggðum langtímalánum. Búseturétthafar hafi því fundið fyrir hækkun á mánaðargreiðslum og hækkun á vísitölu eins og aðrir. Hann segir búsetufélögin hafa brugðist við með greiðslujöfnun, sem þýðir að mánaðargreiðsla hafci verið lækkuð en mismunurinn dreifist á næstu áratugi.


Að sögn Gísla Arnar, voru ítrekuð tilmæli send til stjórnvalda um að leiðrétta fasteignalán fleiri aðila en eingöngu eignaraðila. Að sögn Rakelar Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra spyr.is hafa upplýsingaveitunni borist upplýsingar frá fleiri hópum sem nú eru að skoða rétt sinn og eru þá með sama hætti að líta til þess að mögulega hafi stjórnvöld brotið á jafnræðisreglu með skuldaleiðréttingunni.