140 milljarðar í flóttamannaaðstoð

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna samþykktu á neyðarfundi sínum um flóttamannavandann í gærkvöld að styrkja Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um einn milljarð evra, ríflega 140 milljarða króna.
 
A því er fram kemur á fréttavef RÚV er féð allt eyrrnamerkt aðstoð við sýrlenskt flóttafólk sem enn er í Miðausturlöndum, en það á einkum að renna til hjálparstarfa í Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi, þar sem milljónir Sýrlendinga hafa leitað skjóls frá stríðsátökunum í heimalandinu. Fyrr á þessu ári veitti Evrópusambandið sömu upphæð til sömu verkefna. Markmiðið með þessu er að hægja á straumi sýrlensks flóttafólks til Evrópu.

Þá var samþykkt að efla eftirlit á ytri landamærum Evrópusambandins og koma upp móttökumiðstöðvum í þeim ríkjum sambandsins sem flóttamenn frá Miðausturlöndum og Afríku koma fyrst til fyrir nóvemberlok.

Í frétt RÚV kemur fram að Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins var ánægður að fundi loknum, þótt ágreiningur sé enn uppi um miðstýrða skyldumóttöku flóttafólks. Sagði hann eitt meginmarkmið fundarins hafa verið að binda endi á opinberar orðahnippingar og brigslyrði ríkja á milli.

Hálf milljón flóttafólks er þegar komin til Evrópu, en Tusk varaði við því að enn fleiri ættu eftir að fylgja í kjölfarið og því væri samvinna Evrópusambandsríkjanna brýn. Aðgerðirnar sem samþykktar hefðu verið á fundinum kæmu ekki til með að leysa vandann í eitt skipti fyrir öll, en þær væru allar mikilvæg og nauðsynleg skref í rétta átt, svo sem segir í frétt RÚV í morgun.